„Lýðskrumarar telja það höfuðatriði að lækka laun alþingismanna,“ skrifar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, og slær saklaus högg í hina og þessa. Án þess að nefna einn einasta á nafn. Vilhjálmur er örugglega einn af boðberum Valhallar.
Ef það er lýðskrum að ætla að þau sem ríkið borgar mest, og jafnvel á heimsvísu, sýni gott fordæmi og skrúfi fyrir kranann, þó ekki væri nema eitt augnablik, þá er víst að margir Íslendingar vilja kallast lýðskrumarar.
Allt er þetta að finna í grein Vilhjálms sem Mogginn birtir í dag. Villi reynir að hæðast að þeim sem hafa áhyggjur af stöðu heimilanna, fari allt á verri veg og verðbólga skelli á.
„Lýðskrum sumra nýkrýndra verkalýðsleiðtoga nú kemur fram með þeim hætti að þeir virðast ætla að hefja baráttu fyrir því að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum. Hún er undarleg tík, pólitíkin!“
Nú veður Vilhjálmur Bjarnason út í foraðið til Davíðs Oddssonar. Linnulausar og rangar aðfinnslur um núverandi forystu launafólks sætir svona skrifum eða ámóta flesta daga. Og lætur sér eflaust í léttu rúmi liggja.
Svo kemur vindhögg úr fortíðinni:
„Eitt sinn var greinarhöfundur á leið heim frá útlöndum. Eins og oft vill verða ræður hending sessunaut í flugi. Sessunautur minn var Svíi, sem starfaði alla tíð hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann stundaði nám við Stokkhólmsháskóla í seinni heimsstyrjöldinni. Lýsing sessunautarins á íslenskum námsmönnum var heldur nöturleg. Hann sagði flesta hafa verið mikla kommúnista en margir þeirra hafi verið illa agaðir og drykkfelldir.“