Það virðist lítill skilningur á nauðsyn þess að bregðast strax við og undirbúa viðunandi framtíð.
Ólafur Sigurðsson matvælafræðingur skrifar.
Í nýrri álitsgrein 17 þekktra vísindamanna á vefsíðunni frontiersin.org ,,Understanding the Challenges of Avoiding a Ghastly Future“ er fjallað um vanhæfni mannkyns til að takast á við umhverfisvána sem virðist ætla eyða stærstum hluta lífs á jörðinni og hversu stutt er í þennan svonefnda sjötta aldauða lífs á jörðu (>75% dauði).
Í mjög náinni framtíð verða breytingar í vistkerfum okkar sem munu verða mun hættulegri en nokkurn grunaði, jafnvel meir en margir vísindamenn virðast halda. Bent er á að margir þeirra starfi við afmarkað svið en vanti stundum yfirsýn og tengingu við aðra þætti.
Það blasir því við hrun náttúrunnar sem er þegar hafið og dauði stærsta hluta alls lífs og virðist mörgum erfitt að takast á við þessar staðreyndir. Vanhæfni stjórnmálanna, fjölmiðlanna og menntastofnana til þessa – til að skilja samhengið í því sem er farið af stað hefur valdið því að við erum líklega búin að missa af lestinni. Þessvegna eru fjölmargir virtir vísindamenn nú að hamra á því að það verði að segja frá þessu og undirbúa þjóðirnar eins og þessi álitsgrein hjá ,,Frontiers in Conservation Science“ sem er birt á vefsíðunni þeirra ber með sér.
Ef trúa má vísindamönnum, þá mun lítið af því sem við byggjum á næstu áratugum standa í lok þessarar aldar því innan fárra áratuga er búist við hruni lífríkisins í sjónum á stórum svæðum sem og á landi með tilheyrandi hungursneyðum og landflótta um allan heim. Búsvæði mannkyns munu flytjast á norðurhjara og á Suðurskautið þar sem verður hugsanlega hægt að búa um hríð allavega.
Það virðist lítill skilningur á nauðsyn þess að bregðast strax við og undirbúa viðunandi framtíð. Þessi vanhæfni stofnana, fjölmiðla og yfirvalda mun því koma í veg fyrir að hægt verði að bjarga nokkru hér um, hvað þá að undirbúa þjóðirnar fyrir nýja framtíð.
Á ráðstefnum Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) um umhverfismál, þar sem bindandi stefnumótandi ákvarðanir eru teknar, hafa komið fram tillögur um ýmsar aðgerðir og birtar spár um afleiðingarnar, þannig að ef við drögum svona mikið úr útblæstri CO2 ásamt öðrum aðgerðum þá muni hlýnunin minnka samsvarandi. Síðan hafa mörg ríki eða yfirvöld þeirra notað þetta til að benda á hversu vel þetta líti nú út, nógur tími enn! – en á sama tíma hafa flest ríkin aukið brennslu á olíu, kolum og gasi og leyft frekari vinnslu til langrar framtíðar. Meira að segja Ólafur Ragnar Grímsson hefur bent á að ýmsir nýir möguleikar séu að opnast við bráðnun Norður Íshafsins en búast má við að olíuvinnsla hefjist fljótlega þar sem ís hefur hörfað.
Nokkrir vísindamenn sem unnu að þessum áætlunum hafa bent á að spárnar þeirra haf i sumar verið úreltar við birtingu, verið alltof hóflegar. Þess skal þá getið að einungis fást samþykktar niðurstöður ef öll ríkin sem standa að ráðstefnum SÞ samþykki þær. Þannig hafa nokkrir þættir sem geta hafa gríðarleg áhrif á hamfarahlýnunina eins og mikil metanlosun t.d. í túndrunni og Norður Íshafinu ekki verið metin enda erfitt að ætla slíkt. Þó er talið að metangasið hafi verið mikill örlagavaldur í fyrri aldauðum lífs á jörðu.
Þannig hafa sumir vísindamenn lýst yfir miklum vonbrigðum með þennan vettvang SÞ, þrátt fyrir bjartsýnina sem einkenndi Parísarsamkomulagið 2015 (COP21) þar sem 196 aðilar samþykktu lagabindandi aðgerðir til verndar loftslaginu.
Vísindamenn virðast skiptast í tvo flokka, þeir sem tala um línulegar breytingar og hinir sem láta sem hæst og tala um veldisvöxt og ,,tipping points“ eða veltipunkta þar sem ein breyting hvetur aðra og veldur margföldum áhrifum í kjölfarið. Fjölmargir veltipunktar hafa verið greindir sem vantar í útreikninga og framtíðarspár í skýrslum Sameinuðu Þjóðanna.
Leiðtogar sumra ríkja hafa alfarið afneitað þessum staðreyndum og lagst í áróður gegn hættunni. Samtök hafa verið stofnuð víða um allan heim til að dreifa áróðri gegn viðvörunum um hættuna og má nefna dæmi um það hér þar sem Brynjar Níelsson, Sigríður Andersen og fleiri þingmenn úr öðrum flokkum hafa gert lítið úr hættunni og jafnframt þeim sem hefja máls á þessu. Þetta viðhorf sumra stjórnmálamanna ofl. hefur orðið til þess að stjórnmálin eru vanhæf – ekki aðeins til að snúa þróuninni við heldur einfaldlega til að undirbúa þjóðirnar undir það sem mun líklega gerast þar sem ekkert bendir til að dregið verði úr losun að neinu ráði, frekar hitt.
Það er sem vísindamennirnir 17 sem stóðu að þessari álitsgrein hafi einfaldlega tekið af sé hanskana og ætli sér að segja hlutina eins og þeir eru og munu verða samkvæmt rannsóknum þeirra og annarra. Meira síðar.