„Í nýlegum dómi sem féll í Hæstarétti var Alþingi ávítt fyrir að sinna ekki því sem dómurinn kallar stjórnskipulega skyldu þess til að tryggja það að lög sem eru samþykkt hér standist stjórnarskrá. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að lög sem hefðu verið samþykkt hér á þingi og tilgreint í greinargerð að ekki væri þörf á skoðun á í samræmi við stjórnarskrá stæðust ekki stjórnarskrá,“ sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir Pírati í þingræðu.
„Það hefur verið mér hugleikið undanfarið hvernig löggjafarvinnan á sér stað hér á þessu þingi án þess að alltaf sé gætt að því að þau lög sem við erum að samþykkja hér í þessum þingsal standist stjórnarskrá lýðveldisins Ísland frá árinu 1944,“ sagði Arndís Anna.
„Stjórnarskráin er grundvallarlöggjöf, löggjöf sem öll önnur lög þurfa að vera í samræmi við. Í stjórnarskránni er kveðið á um stjórnskipan landsins en einnig um grundvallarréttindi sem hver manneskja hér á landi á að njóta og skal njóta. Margar þeirra skyldna sem lagðar eru á ríki í þeim reglum, þeim réttindum, koma úr alþjóðlegum samningum sem Ísland hefur samþykkt. Þegar frumvarp fer í gegnum þingið er enginn tímapunktur þar sem frumvarpið fer í kerfisbundna skoðun, athugun á því hvort ákvæði þess standist stjórnarskrá. Þetta mat fer eingöngu fram í ráðuneytinu þegar um er að ræða stjórnarfrumvörp áður en frumvarpið kemur til þings og er ekki óalgengt að sjá í greinargerð og texta með lagafrumvörpum að frumvarpið gefi ekki tilefni til athugunar á því hvort það standist stjórnarskrá.“