Alþingi, þar sem einelti er heimilt
„Þannig er munurinn á siðareglum Alþingis og siðareglum skólabarna sá að á leikvellinum ertu ábyrgur gjörða þinna jafnvel þótt þú sitjir hjá en ef þú ert alþingismaður þá er allt í lagi að vera appelsínugulur kall svo lengi sem þú ert ekki rauður,“ þetta er meðal þess sem má lesa í fínni grein sem Mars Proppé háskólanemi skrifar í Fréttablaðið í dag, grein sem sem flestir ættu að lesa.
Appelsínugulur er sá sem er vitni að einelti og leyfir því að viðgangast átölulaust. Rauður er gerandi.
„Ef þú ert grunnskólabarn og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að Jóni með gleraugun þá er það þér að kenna, að minnsta kosti að hluta til, þegar hann fer að gráta. En ef þú ert alþingismaður og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að fötluðum, að hinsegin fólki, að konum, þá er það ekki þér að kenna þegar heilu minnihlutahóparnir fara að gráta heima hjá sér á kvöldin. Nei, því þau eru bara vælukjóar, ekki nógu hot, klikkaðar kuntur eða apakettir,“ skrifar Mars.
Fyrr í þessari fínu grein segir: „Klaustursmálið, sem hefur drattast áfram í fjölmiðlum og hjörtum þjóðarinnar frá því að fyrstu menn fóru að setja upp jólaskreytingar í vetur, hefur nú loks náð endastöð sinni í umfjöllun innan veggja Alþingis. Niðurstaðan var sú að aðeins tveir þeirra sex aðila sem sátu til borðs og töluðu illa um samstarfsfólk sitt, jafnt sem ókunnuga, eru fundnir sekir um það að brjóta siðareglur Alþingis.“
Greinin er lengri og fínn lestur.