- Advertisement -

Alþingi: Stórsókn ríkisstjórnarinnar í ríkisútgjöldum

Fjármálaráðherra, eigum við að taka þetta plagg trúanlegt nú?“

„Við höfum ítrekað gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir óskhyggju þegar kemur að fjárlagagerðinni og þá yfirlýstu stórsókn í ríkisútgjöldum sem þessi stjórn er stofnuð um. Þessi draumsýn hefur sennilega aldrei verið meiri en einmitt núna,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður  Viðreisnar, á Alþingi. Hann hélt áfram á sömu nótum:

„Ég velti því fyrir mér, hæstvirtur ráðherra, hvernig í ósköpunum standi á því, þegar við stóðum hér fyrir ári síðan og ræddum fjárlagagerð fyrir árið 2019, yfirstandandi ár, þurftum síðan að endurskoða hana frá grunni í vinnu fjárlaganefndar í nóvember, þurftum síðan að endurskoða efnahagslegar forsendur hennar enn eina ferðina í umræðu um nýja fjármálastefnu hér í vetur, sjáum síðan í útkomuspá fyrir þetta ár að ekki einu sinni þær forsendur ætla að ganga eftir heldur er hér a.m.k. 40 milljarða veikleiki í framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2019 — að engu að síður er, eins og ekkert hafi í skorist, komið fram með fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og hér er rósrauð og björt framtíð. Tekjur munu, fyrir eitthvert kraftaverk, taka við sér strax á næsta ári. Útgjöld munu ekki fara neitt úr böndunum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi misst tökin á ríkisfjármálunum nú þegar. Það er 20 milljarða tekjuveikleiki á árinu 2019. Það eru a.m.k. 20–30 milljarða útgjaldaaukning frá endurskoðuðum forsendum ársins 2019. Hvernig í ósköpunum, hæstvirtur fjármálaráðherra, eigum við að taka þetta plagg trúanlegt nú?“

Bjarni Benediktsson svaraði Þorsteini:

Bjarni:
Ég nefni loðnubrestinn, ég nefni augljóst gjaldþrot í ferðaþjónustu.

„Þetta var mikil lesning yfir hausamótunum — á hagfræðingunum. Það eru hagfræðingarnir sem háttvirtur þingmaður er að beina sjónum sínum að. Háttvirtur þingmaður verður bara að gera upp við sig: Á ríkisstjórnin að byggja á opinberum hagspám eða einhverri tilfinningu fyrir því sem kynni að gerast? Það er hægt að gagnrýna þá sem hafa sett saman hagspárnar — og við höfum notað þær til grundvallar. Það er alveg rétt að þær hafa ekki gengið eftir og stundum hafa stórir, ófyrirséðir atburðir komi upp á. Ég nefni loðnubrestinn, ég nefni augljóst gjaldþrot í ferðaþjónustu.“

Bjarni var ekki hættur:

„Undirliggjandi spurningin er þessi: Hvert er hið raunverulega vandamál sem háttvirtur þingmaður er að lýsa og hvar er það að bitna á fólkinu í landinu? Hvar eru mistökin við áætlanagerð að koma fram sem skellur fyrir heimilin? Er það í verðbólgunni? Nei, það getur nú varla verið, hún er alveg innan marka. Er það í vaxtarstiginu? Vaxtarstig hefur aldrei verið lægra. Er það að birtast í því að við náum ekki að standa við áætlun um uppgreiðslu skulda? Nei, við erum á undan áætlun í uppgreiðslu skulda. Er það í atvinnustiginu? Hvar er það sem þessi rosalegi vandi sem hv. þingmaður hefur verið að tala um svo misserum skiptir brýst fram og kemur niður á fyrirtækjum og almenningi? Hvað er það í opinberum fjármálum sem við ættum að vera að gera með allt öðrum hætti við þessar aðstæður?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: