Stjórnmál Alþingi kemur saman á morgun og mun samþykkja lög sem banna verkfall flugvirkja. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði þetta í viðtali við mbl.is:
„Við vonum enn að deilan leysist og samningsaðilar axli þá ábyrgð að klára samninga sína á milli. Að ganga til slíkrar lagasetningar er, líkt og ég hef áður sagt, algjört neyðarúræði og aðeins réttlætanlegt þegar í húfi eru miklir almannahagsmunir. Þannig er staðan klárlega núna, en það breytir engu um það að það er að mínu mati einnig algjörlega óviðunandi að svona staða sé ítrekað að koma upp að löggjafinn þurfi að hafa afskipti af kjaraviðræðum einnar starfstéttar við eitt fyrirtæki. Sú þróun gefur klárlega tilefni til að skoða þessa lagaumgjörðina sem við búum við og heimildir ríkissáttasemjara,“ sagði Hanna Birna í samtali við mbl.is.
Maríus Sigurjónsson, formaður félags flugvirkja var í viðtali við mbl.is, fyrr í dag, áður en samningafundur hófst. Hann var ekki ýkja bjartsýnn og sagði þetta áður en fundur hófst.
„Við mætum í dag af virðingu við ríkissáttasemjara. Hann hefur boðað til fundarins,“ sagði Maríus.