„Við munum greiða atkvæði gegn þriðja orkupakkanum en viljum að sjálfsögðu leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda liggur nú þegar fyrir í þinginu frá því í vor, tillaga Flokks fólksins þess efnis. Komið var í veg fyrir að við fengjum að mæla fyrir henni. Þegar á reynir þá þorir þingið ekki að spyrja sína eigin þjóð.“
Þetta skrifar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í Moggagrein í dag. Þar hnýtir hún í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Moggagrein í dag. Hún rifjar þar upp fyrirspurn í þinginu frá Þorsteini Víglundssyni, varaformanni Viðreisnar.
„Bjarni Benediktsson brást knálega við fyrirspurn þingmanns Viðreisnar. Hann lét einkum í seinna andsvari sínu falla orð sem oft hafa rifjast upp í huga mér síðan. Meðal annars þá spurði Bjarni: Hvað höfum [við] með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins raforkumál af eyjunni Íslandi? Síðar sagði Bjarni svo: Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? Og enn bætti Bjarni við: Mér finnst vera svo mikið grundvallaratriði að við skilgreinum hvað séu innrimarkaðsmál sem við viljum sinna sérstaklega undir EES-samningnum og hvað séu mál sem tengjast ekki beint innri markaðnum. Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innrimarkaðsmál,“ skrifar Inga Sæland.
Fyrirsögn greinar Ingu er: „Formaður á flótta“.
„Alþingi mun koma saman 28. ágúst nk. til lokaafgreiðslu þingmála er snúa að þriðja orkupakkanum. Ljóst er að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur gjörsamlega snúið blaðinu við og ætlar nú að samþykkja aukin yfirráð boðvaldsins í Brussel yfir orkuauðlindum okkar. Þrátt fyrir harða gagnrýni og mikla ólgu innan grasrótar flokksins gegn þriðja orkupakkanum, kýs forystan að keyra Pakkann í gegnum þingið í bullandi ágreiningi, ekki einungis innan eigin raða heldur og gegn meirihluta þjóðarinnar,“ bætir Inga við.
„Við í Flokki fólksins virðum gerða samninga, bæði innan þings og við fólkið sem kaus okkur. Við höfum ávallt staðið föst í ístaðinu gegn orkupakka þrjú og gegn frekara fullveldisafsali íslenska lýðveldisins. Fullveldið er okkar fjöregg. Við munum greiða atkvæði gegn þriðja orkupakkanum en viljum að sjálfsögðu leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda liggur nú þegar fyrir í þinginu frá því í vor, tillaga Flokks fólksins þess efnis. Komið var í veg fyrir að við fengjum að mæla fyrir henni. Þegar á reynir þá þorir þingið ekki að spyrja sína eigin þjóð.“