- Advertisement -

Alþingi: Segjast leiðir á leiðindunum

Alþingi Þingmenn, sumir hverjir, tjá sig nú og segjast leiðir á leiðindum. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði í þættinum Sprengisandur á sunnudag vanda þingsins meðal annars vera þann að meirihlutinn, „…samsteypan sem er ríkisstjórnin, fer með 100 prósent vald á þinginu. Þegar svo er er engin tól eftir fyrir minnihlutann önnur en fjárans leiðindi.“

Bjarni BenediktssonBjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur viðrað hugmyndir um breytingar. „Við þurfum að horfast í augu við að núgildandi reglur bjóða heim hættunni á að þegar ágreiningur ríkir um mál leysist þingið upp í opinn vettvang fyrir rifrildi sem engu skilar fyrir samfélagið. Það leiðir aftur til þess að dregur úr virðingu fyrir þingstörfunum. Menn mala fram á nótt, taka marga þingdaga í að ræða tiltölulega einföld mál til að styrkja stöðu sína þegar dregur nær þinglokum. Við erum í þessum sporum í dag. Einu sinni enn.“

Helgi Hrafn GunnarssonBjarni vill auka völd forseta þingsins. „Fólk misgreinir vandann eða kemur með rangar lausnir. Ég held ekki að sé rétt að það þurfi að skipta út fólki eða menningu á Alþingi. Vandinn er kerfið sem við vinnum eftir. Þar á meðal stjórnarskráin. Ég held að Bjarni greini vandann rétt, það er
að segja að þingsköp eru þannig að það eina sem minnihlutinn hefur til að koma einhverjum málum fram, eða stöðva mjög umdeild mál, er að vera með leiðindi. Jafnvel ofboðsleg leiðindi. Lausn Bjarna er röng. Lausnin hans er að takmarka ræðutíma og gefa forseta þingsins einn meira vald. Þá er gott að nefna að forestinn er svo gott sem alvaldur á þinginu. Hann er að auki annar þingmaður Norðvesturkjördæmi fyrir Sjáflstæðisflokkinn, hann er í meirihlutanum, hann stjórnar dagskránni og hann stjórnar umræðunum. Hann tekur einnig ákvarðanir um hvaða mál eru þingtæk og svo framvegis,“ sagði Helgi Hrafn.

Ein þeirra hugmynda sem Bjarni viðraði til lausnar, eða betri starfshátta á þinginu væri að gera líkt og gert er í Danmörku, það er þriðjungur þingmanna geti vísað málum til þjóðaratkvæðis.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Árni Páll Árnason„Frumforsenda breytinga er því að flytja vernd minnihlutans gegn meirihlutaræðinu úr ræðustólnum og yfir í annað form. Við getum ekki takmarkað ræðutíma, án þess að fela minnihlutanum annað og helst tryggara vopn gegn misbeitingu meirihlutans á valdi hans. Þess vegna er heimild þriðjungs þings til að setja mál í þjóðaratkvæði alger forsenda nokkurra breytinga. Slík heimild myndi breikka samstöðu um erfið mál og hvetja ríkisstjórn á hverjum tíma til að hafa a.m.k. 70% þingmanna á bak við þau. Það yrði mikil breyting til batnaðar á íslenskri stjórnmálamenningu,“ skrifar Árni Páll Árnason í Fréttablaðið í dag.

Fljótt á litið ber nokkuð á milli sjónarmiða stjórnarsinnar og stjórnarandstæðinga. Kunn staða.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: