- Advertisement -

Alþingi samþykkti samhljóma – ráðherrann gerir samt ekkert

„Það er miður að ráðherra málaflokksins hafi ekki hugsað sér að framfylgja skýrum vilja löggjafans þrátt fyrir að allur þingheimur standi að baki því að eldra fólki skuli tryggður hagsmunafulltrúi.“

„Ég vek athygli á því að þessi þingsályktunartillaga var fyrst lögð fram árið 2019 og það eru tvö ár síðan hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi Íslendinga á vordögum 2021. Þessi tillaga um hagsmunafulltrúa aldraðra var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en svo virðist sem ráðherra málaflokksins hafi ákveðið að setja þetta verkefni á hilluna og setja eigin áherslur í forgang. Hann gengur þannig þvert gegn skýrum vilja Alþingis því eins og áður sagði var þingsályktunartillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra 54 alþingismanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni. Eru samþykktir Alþingis ekki meira virði en þetta?“

Þetta sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi þegar þar var rætt um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk árin 2024 til 2028.

„Eftir að Alþingi samþykkti fyrrgreinda þingsályktun leið heilt ár þar til ráðherra skipaði starfshópinn. Hann var ekki skipaður fyrr en í apríl 2022, eftir að frestur til að skila ráðherra drögum að frumvarpi sem Alþingi hafði kveðið skýrt á um með þingsályktuninni rann út. Þegar starfshópurinn lauk vinnu sinni var formanni Flokks fólksins boðið á fund með ráðherra og formanni starfshópsins. Þar kom í ljós að formaður starfshópsins hugðist ekki skila ráðherra frumvarpi heldur ætlaði að mæla með því að öll slík fyrirheit yrðu sett á ís þar til þessi aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar væri komin til framkvæmda og hægt að meta árangur hennar. Það er miður að ráðherra málaflokksins hafi ekki hugsað sér að framfylgja skýrum vilja löggjafans þrátt fyrir að allur þingheimur standi að baki því að eldra fólki skuli tryggður hagsmunafulltrúi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: