Björn Leví Gunnarsson tók oft til máls í umræðu um fjáraukalög. 21. desember sagði hann:
„Það er eitt í fjárlögum sem ég skil ekki, að vísu margt svo sem en þetta sérstaklega. Nú er það svo að Alþingi samþykkir fjárheimildir í allan fjandann, atvinnuleysi, lífeyri, lyf, heilbrigðiskerfi o.s.frv. Þegar fjárheimildin er búin t.d. fyrir lyfjum, sem hefur gerst ansi oft á undanförnum árum, þá er ekkert hætt að kaupa lyf. Það er haldið áfram að kaupa lyf og komið hér með fjáraukalagafrumvarp: Heyrðu, við þurfum að borga þessi aukalyf sem við keyptum. Gott og blessað. Svo erum við með eitthvað eins og endurgreiðslur fyrir kvikmyndir. Þegar fjárheimildin er búin þar er bara hætt að borga. Af hverju er ekki haldið áfram að borga svo að þeir sem sóttu um og eiga rétt á fái þetta og svo komið hérna með fjárheimildir í fjárauka seinna og sagt: Heyrðu, já, þetta eru heimildir sem við ætlum að borga og allt í lagi með það? Af hverju er þetta t.d. ekki gert með NPA-samninga? Það eru lög um að það eigi að vera ákveðið margir samningar á ári sem ríkið borgar með og við samþykkjum fjárheimild. Núna erum við einmitt að bæta við í breytingartillögu fjárheimildum fyrir þessum samningum, en samt eru ekki það margir samningar í framkvæmd, þrátt fyrir að það sé biðlisti. Og þegar fjárheimildin er búin er bara hætt að borga. Svo er það Hefjum störf. Hérna samþykktum við í vor fjárheimild fyrir Hefjum störf upp á 3,4 milljarða, fyrir 7.000 ný störf, sumarstörf fyrir nemendur og ýmislegt svoleiðis, mjög fínt. En þegar fjárheimildin var búin var ekki hætt að borga. Það var haldið áfram að borga. Það var hins vegar ekki gert vegna NPA-samninganna en það var gert fyrir Hefjum störf. Af hverju er þessi munur? Af hverju er stundum haldið áfram að borga og stundum, þegar fjárheimildin klárast, er bara hætta að borga? Af hverju kemur stundum beiðni í fjárauka um auknar fjárheimildir fyrir einhverju sem var ekki hætt að borga og stundum ekki?“