Trúir ekki öðru en þingmenn samþykki aðkomu almennings.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram tillögu á Alþingi um þjóðaratkvæði um þriðja orkupakkann.
„Vonandi fæ ég að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu minni um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann sem fyrst eftir að Alþingi kemur saman eftir páskahlé á störfum þingsins. Ég trúi ekki öðru en allir þeir þingmenn sem unna lýðræði, og ekki síst hugmyndum um beint lýðræði, muni fagna þessari tillögu minni og leggja sitt af mörkum til að hún hljóti samþykki meirihluta á þingi,“ segir Inga í grein sem birt er í Mogganum í dag.
„Það hefur vart farið fram hjá neinum að fyrirhuguð innleiðing þriðja orkupakkans svokallaða hefur valdið miklum deilum í samfélaginu,“ skrifar hún. Inga bendir á að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands geti ekki verið „öryggisventill“ hvað varðar orkupakkann.
„Þar sem um þingsályktun er að ræða hefur forseti Íslands ekki synjunarvald eins og gildir um lagafrumvörp. Því hefur almenningur ekki færi á að hvetja forseta með undirskriftasöfnun eða öðrum hætti til að synja málinu staðfestingar og leggja það þar með í þjóðaratkvæði. Þetta þýðir þó ekki að þar með sé loku fyrir það skotið að vísa þessu máli til þjóðarinnar.“