- Advertisement -

Alþingi og týndu ályktanir þess

Alþingi „Í dag kýs ég að gera að umtalsefni mínu týndar þingsályktanir þessa þings. Í anda nýrra vinnubragða langar mig að minna stjórnarmeirihlutann á og ræða við alla þingmenn hér um hvernig við sjáum fyrir okkur ný vinnubrögð vegna eftirfylgni þeirra þingsályktana sem þingið samþykkir, eftirfylgni þeirra tilmæla sem koma frá hinum ýmsu rannsóknarnefndum sem Alþingi skipar. Hvernig fylgjum við því eftir? Hvernig er þinginu ætlað að uppfylla hlutverk sitt sem eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu og hlutverk sitt sem löggjafi?“

Þannig mælti Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir Pírati á Alþingi í gær.

„Nú rifja ég upp nokkrar þingsályktanir sem hafa bara legið í salti og enginn veit örlög þeirra,“ sagði hún, og hélt áfram.

„Það má nefna þingsályktun um rannsókn á einkavæðingu bankanna, þingsályktun um ýmis mál sem tengjast tjáningarfrelsi og höfundarétti, þ.e. um Icelandic Modern Media Initiative eins og það er oft kallað, sem liggja bara í skúffu í ráðuneyti, og þingsályktun um heildarstefnumótun í málefnum heilabilaðra. Hér má nefna geðheilbrigðisáætlun sem við höfum engin verkfæri til að fylgja eftir. Það má nefna heildarendurskoðun laga um fóstureyðingar sem ekkert hefur gerst með. Hér má einnig nefna endurskoðun laga um ávana- og fíkniefni og annarra laga sem samkvæmt tillögum starfshóps þáverandi hæstvirts heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, þarf að endurskoða.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún sagði næst: „Þetta liggur allt fyrir en hver eru verkfæri þingsins til að fylgja þessu eftir? Þau eru afskaplega fá, hæstvirtur forseti. Við höfum engar leiðir nema mögulega fyrirspurnir og skýrslubeiðnir og annað til að athuga hver staða mála er þegar kemur að ályktunum sem þingið samþykkir, þeim fyrirmælum sem við gefum framkvæmdarvaldinu.“

Og að lokum: „Ég legg til við allan þingheim að við vinnum að því saman að styrkja þau úrræði sem þingmenn hafa sem eftirlitsaðilar með framkvæmdarvaldinu til að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem þingið gefur framkvæmdarvaldinu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: