Greinar

Alþingi Íslendinga hefur brugðist sjávarbyggðum vítt og breitt um landið

By Miðjan

September 12, 2023

Vilhjálmur Birgisson skrifaði:

Því miður ætlar þessari sorgarsögu sjávarbyggða vítt og breitt um landsbyggðina seint að ljúka.

En eins og flestir vita þá hefur meingallað fyrirkomulag um stjórn fiskveiða farið eins og skýstrókur um sjávarbyggðir og sogað lífsviðurværi fiskvinnslufólks á landsbyggðinni í burtu og fólkið skilið eftir í átthagafjötrum.

Það eru einungis örfá ár síðan allar aflaheimildir okkar Akurnesinga voru teknar af okkur og á annað hundrað fiskvinnslufólk missti lífsafkomu sína.

Ég finn til með Seyðfirðingum, enda er þetta klárlega gríðarlegt högg fyrir samfélagið en um 900 manns búa á Seyðisfirði.

Þessar uppsagnir í þessu sjávarplássi væri eins og tæplega 5000 þúsund manns myndu missa atvinnuna í Reykjavík á einni nóttu. Er nokkuð viss um að það myndi heyrast harmakvein á höfuðborgarsvæðinu ef 5000 þúsund myndu missa lífsviðurværi sitt..

Ég vil minna alla þingmenn á 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir orðrétt:

„ 1. gr.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Já takið eftir „tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu“

Á þessu sést að Alþingi Íslendinga hefur brugðist sjávarbyggðum vítt og breitt um landið með aðgerðaleysi sínu, enda skýrt kveðið á um hvert hlutverk nytjastofna á Íslandsmiðum á að vera! Já, trausta atvinnu og byggð í landinu!