- Advertisement -

Alþingi hefur samþykkt handónýt lög

Það er skylda okkar sem vinnum hér að tryggja faglega og góða lagasetningu.

„Því miður er það staðreynd að á Alþingi hafa oft verið sett lög sem ekki standast stjórnarskrá, alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og brjóta jafnvel á réttindum tiltekinna hópa. Það er svo ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar æðstu dómstólar kveða upp dóm sinn sem endanleg niðurstaða fæst sem staðfestir brot löggjafans,“ sagði Halldóra Mogensen á Alþingi í dag.

Hún sker ekki utan af því. Og hefur eflaust fulla ástæðu til að tala enga tæpitungu. En hvað er til ráða?

„Í gær lagði ég ásamt öðrum þingmönnum Pírata og þingmönnum Samfylkingarinnar og Viðreisnar fram frumvarp þess efnis að sett verði á fót nefnd sem nefnist Lögrétta,“ sagði Halldóra í þingræðu sinni.

„Nefndin hefði það hlutverk að gefa álit á því hvort lagafrumvarp sem liggur fyrir þinginu samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknum gæðum í lagasetningu, að tryggja að frumvörp standist ákvæði stjórnarskrár og að þau uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þannig má stuðla að vandaðri meðferð lagafrumvarpa á Alþingi. Frumvarpið byggir á tillögu stjórnlagaráðs um Lögréttu í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sem lagt var fram á Alþingi árið 2012.“

Halldóra og þingmennirnir finna til ábyrgðar.

„Það er skylda okkar sem vinnum hér að tryggja faglega og góða lagasetningu sem ekki brýtur stjórnarskrá eða á réttindum einstakra hópa. Ef stofnuð verður nefnd fagaðila sem gefið getur þinginu álit sitt, kalli það eftir því, getur það einmitt komið í veg fyrir að þingið endurtaki fyrri mistök sín og setji lög sem ekki standast stjórnarskrá. Ef okkur er raunverulega annt um að vernda mannréttindi íslensku borgaranna sem tryggð eru í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasamningum hljótum við að sameinast um að tryggja málinu framgöngu á þingi. Ég vona það svo innilega.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: