- Advertisement -

ALÞINGI FÆR EITT TÆKIFÆRI ENN

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Alþingi kemur saman á mánudaginn kemur eftir mjög langt jólafrí. Hvers vegna þurfa alþingismenn miklu lengra jólafrí en aðrir vinnandi menn á Íslandi? Ég tel það tímaskekkju. Ég tel, að alþingi eigi að koma saman strax eftir áramót, ár hvert, og alþingismenn að byrja vinnu þá eins og aðrir en margir vinnandi menn vinna einnig milli jóla og nýár.

Það hefði ekki veitt af að alþingi hefði komið saman strax eftir áramót til þess að leiðrétta eitthvað af því rugli, sem er í gangi á alþingi. Klausturmálið er hvergi nærri afgreitt á alþingi. Öll forsætisnefnd þingsins taldi sig vanhæfa í málinu og gat ekki vísað málinu til siðanefndar þó hugur væri til þess. Í gær kaus forsætisnefnd eða gerði tillögu um fleiri varaforseta, sem eiga að fá það verkefni að afgreiða Klausturmálið. Nýju varaforsetarnir eiga að vera „vammlausir“ eða hreinir af því að hafa tjáð sig svo um Klausturmálið, að þeir teldust vanhæfir.

Gengi alþingis stendur ekki hátt um þessar mundir. Það hefur hrapað við Klaustursmáliið. En auk þess hefur mönnum orðið ljóst, að mikil spilling er á alþingi, m.a. mikil samtrygging. Ofurlaun þingmanna og allar aukasporslurnar ganga úr hófi fram og lýsa mikilli spillingu, sem þarf að uppræta.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Alþingi er fyrirmunað að vinna sjálfstætt. Þingmenn þora varla að flytja frumvörp nema að fá leyfi flokksforingjanna. Það er kjaftað um að auka vald alþingis, að hafa meira samráð við stjórnarandstöðuna um mál en þetta er innantómt blaður. Það er talað um að það sé þingræði en í raun er það framkvæmdavaldið, ríkisstjórnin,sem stjórnar þinginu. Ég hef bent á, að stjórn KJ hafi svikið kosningaloforð um að hækka lífeyri aldraðra; sá lífeyrir var ekkert hækkaður að frumkvæði stjórnarinnar allt síðasta árAlþingi gerði ekkert í málinu. Ég hef óskað eftir því margsinnis, að alþingi tæki í taumana í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja, gerði þverpólitískt samkomulag á alþingi um að leiðrétta lægsta lífeyri aldraðra og öryrkja svo unnt væri að lifa af honum (kostar sáralítið). En alþingi er lamað. Það gerir ekkert að eigin frumkvæði. Það bíður eftir ráðherrunum, þingmenn bíða eftir flokksforingjunum. Það er sama hvað málin eru alvarleg; þó fólk hafi ekki nóg að borða, geti ekki farið til læknis eða leyst út lyf sín samt hreyfa þingmenn sig ekki. Það er betra að halla sér aftur á bak!

Ég vil gefa alþingi eitt tækifæri í viðbót í þessu efni. Ég skora á alþingi að taka sig til, gera þverpólitískt samkomulag um að hækka lægsta lífeyri í 420 þús kr á mánuði (310 þús eftir skatt á mánuði). Gera það strax og þing kemur saman. Það kostar lítið, aðeins 2,7 milljarða að hækka lægst launuðu eldri borgara upp í þessa fjárhæð samkvæmt mínum athugunum. Einnig þyrfti að hækka lægst launuðu öryrkja sambærilega. Þingið getur leyst þetta mál ef það vill. Ég tel,að þingið eigi strax eftir jólaleyfi, í næstu viku, að leysa þetta mál og þingið á að mínu mati einnig að taka undir kröfur um betri kjör lægst launaða verkafólks svo og að útrýma barnafátækt. Þetta eru forgangsverkefni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: