Alþingi er vinnustaður þar sem fólk þarf ekki að mæta til vinnu frekar en það vill
„Í úttekt sem var gerð á starfsháttum Alþingis að frumkvæði þingsins til að þingið gæti lært og sett stefnumörkun samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis kom fram að engin fundarsköp eða neinn stjórnunarstaðall er til fyrir þingið. Þingstörfin velta áfram af einhvers konar óskipulögðum hefðum sem forseti Alþingis setur fram í samráði við stjórnmálaflokkana. Þetta er alvörusuðupottur þar sem fólk þarf ekkert að mæta frekar en það vill og getur bara hangið á nærliggjandi börum eða verið í útlöndum á kostnað ríkisins. Málaflokkarnir eru löngu foknir út í veður og vind samanber síðustu daga alþingis núna um daginn,“ segir meðal annars í fínni grein sem Sigurður Sigurðsson byggingaverkfræðingur skrifar og Mogginn birti.
Öll grein Sigurðar fer hér á eftir:
Í útvarpsþætti í síðustu viku svaraði viðmælandi að kjósendur myndu helst hlusta eftir því hjá stjórnmálamönnum á næstunni hvað þeir ætluðu að gera næstu fjögur árin. Það sem þeir hefðu gert síðustu fjögur ár hefði lítið eða ekkert að segja um hvað fólk myndi kjósa. Umræðan var meðal annars um að úrslit næstu kosninga myndu mögulega ráðast að hluta til af því hvernig núverandi valdhöfum hefði tekist að glíma við Covid-19.
Það var áhugavert svar þar sem allar kannanir fjölmiðla um úrslit næstu kosninga fjalla um hvaða flokk fólk ætlar að kjósa. Að úrslit kosninganna fari eftir því. Stjórnmálaflokkarnir hafa einnig sammælst fjölmiðlum um að allt snúist um flokkana og hafa orðið átök um sætin.
Reynslan hefur þó kennt kjósendum að það er ekki sama að kjósa flokk eða kjósa um einhverja tiltekna glæsta framtíð fyrir þjóðina næstu fjögur árin. Eftir kosningar kemur í ljós hvernig atkvæði falla og þá fá formenn þeirra flokka sem mest fylgi fá eða eru taldir sigurvegarar kosninganna umboð til stjórnarmyndunar. Í þeim grauti sem þá er búinn til og kallaður stjórnarsáttmáli eru línurnar lagðar fyrir næstu fjögur árin og kjósendur koma hvergi nálægt þeirri eldamennsku. Þeir geta í besta falli kosið aðra stjórnmálamenn eða flokka eftir þar næstu kosningar að fjórum árum liðnum. En þegar þar að kemur þá er allt gleymt sem var tekist á um fjórum árum áður og allt þaggað í hel.
Fyrir kjósendur er þetta eiginlega nær óendanleg þvæla þar sem engin leið er að kjósa þannig til Alþingis með núverandi fulltrúalýðræði að tryggt sé að einhverjum hjartans málum þjóðarinnar sé tryggður framgangur þótt meirihluti sé fyrir því í samfélaginu.
Sumir málaflokkar sem endalaust njóta velvildar þeirra sem á endanum veljast á þing geta þvælst í áratugi inni í stjórnkerfinu án þess að almenningur fái neitt við ráðið eða geti haft áhrif á þvæluna og bætt samfélagið. Oft virðist þvælan snúast um að tryggja valdastéttinni það sem hún vill, svo sem forgang og aðgengi að auðlindum, fjármagni, verkefnum, atvinnu og margt fleira. Engin leið er að hygla bæði valdastéttinni og þurfalingunum. Valdastéttin heldur því bara sínu þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé því mótfallinn. Það er eiginlega það eina sem er öruggt.
Þvælan skilar valdastéttinni miklum völdum og því er mikill slagur um að komast í þingsæti. Málaflokkar kjósenda og fólksins skipta ekki máli um niðurstöður kosninga. Hinar stríðandi fylkingar safna bara liði eins og fyrir þúsund árum og þeir sem hafa flesta liðsmenn komast alla leið að kjötkötlum og djásnum ríkisins.
Í úttekt sem var gerð á starfsháttum Alþingis að frumkvæði þingsins til að þingið gæti lært og sett stefnumörkun samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis kom fram að engin fundarsköp eða neinn stjórnunarstaðall er til fyrir þingið. Þingstörfin velta áfram af einhvers konar óskipulögðum hefðum sem forseti Alþingis setur fram í samráði við stjórnmálaflokkana. Þetta er alvörusuðupottur þar sem fólk þarf ekkert að mæta frekar en það vill og getur bara hangið á nærliggjandi börum eða verið í útlöndum á kostnað ríkisins. Málaflokkarnir eru löngu foknir út í veður og vind samanber síðustu daga alþingis núna um daginn.
En hvernig getur fólk þá kosið til Alþingis til að leggja atkvæði sitt til málaflokka, til dæmis málefna eldri borgara og öryrkja, heilbrigðismála, skólamála, atvinnumála, viðskiptalífsins, auðlinda landsins eða utanríkismála svo dæmi séu tekin? Við erum ofurseld hjartalagi og samvisku þeirra sem kjörnir eru á þing.
Í prédikun sinni í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. ágúst sl. vitnaði séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir í 16. kafla Lúkasarguðspjalls: „Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef ekki er hægt að treysta yður fyrir eigum annarra, hvernig getur Guð þá treyst yður fyrir því sem hann ætlar yður að eiga sjálf? Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon.“
Sem sagt; þeir alþingismenn sem ekki geta verið trúir því smæsta eða þeim smæstu eru fólkinu og þjóðinni lítils virði. Sönn verðmæti liggja aðeins í því fólki á þingi sem gefur af sér fyrir þjóðina.
Þjóðin bjó við það ástand í mörg ár eftir bankahrunið að íbúðir og hús voru í þúsundatali teknar af fjölskyldum sem var bara vísað á götuna. Upplýsingar meðal annars um afdrif íbúðanna voru bundnar bankaleynd þannig að engin leið var að vita hvað varð um allt þetta húsnæði sem var tekið af fólkinu í skjóli laga frá Alþingi.
Skuldabréfin á fólkið voru seld erlendum fjárfestingasjóðum á hrakvirði auk þess að til dæmis Íbúðalánasjóður seldi íbúðir í stórum pökkum til fjárfesta. Eftirstöðvar þessara mála eru enn í gangi og Hagsmunasamtök heimilanna starfa enn í þágu þeirra sem voru rændir í þessari gróðabylgju fyrir mammon.
Hvar var hjartalag kristinna alþingismanna?