- Advertisement -

Alþingi boðar átök við ríkisstjórnina til að brjóta niður þagnarmúrana

Kaflaskil geta orðið í samskiptum Alþingis og framkvæmdavaldsins vegna þess að ráðherrar neita ítrekað að svara knýjandi spurningum. Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Sæmundsson hafa snúið bökum saman í baráttunni við ráðherrana.

„Ég er auðvitað þakklátur forseta fyrir það sem hann og forsætisnefnd hafa gert í þessu máli en það er einnig þess vegna sem ég hef áhyggjur. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að yfirlögfræðingur Alþingis hafi gefið út álit í þessu efni skirrast ráðherrar enn við að svara þessari sömu fyrirspurn,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, í framhaldi af því sem getið var um í þessari frétt Miðjunnar í gær.

Þorsteinn, sem hefur gert allt hvað hann getur til að fá svör við hvað varð um allar þær eignir sem Íbúðalánasjóður leysti til sín eftir hrun, en ráðherrar svara engu. Alls hefur Þorsteinn spurt sex sinnum án þess að vera virtur svars. Forseti Alþingis hefur lagt Þorsteini lið. Hann er ekki heldur virtur svars.

Þorsteinn Sæmundsson: „Þá spyr ég: Hvert erum við komin þegar það dugir ekki einu sinni að forseti og forsætisnefnd álykti um mál eins og þetta, að yfirlögfræðingur Alþingis gefi út greinargerð sem send er viðkomandi ráðherrum sem og hæstvirtur forsætisráðherra? Hvert er Alþingi komið ef meira að segja þetta hreyfir ekki við framkvæmdarvaldinu, að standa við það að liðsinna þingmönnum í því að sinna nauðsynlegri eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Steingrímur J. Sigfússon flutti sinn boðskap: „Ég held að forseti verði að segja að verði þessari fyrirspurn ekki svarað í samræmi við þá ótvíræðu niðurstöðu og skyldu sem varð niðurstaða Alþingis eftir rækilega skoðun á málinu að því bæri þá verður það að meiri háttar uppákomu í samskiptum Alþingis og Stjórnarráðsins.“

Logi Einarsson:
Ég er hér með á blaði nokkur mál sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur óskað eftir að fá svör við og þau hafa enn ekki borist.

Logi Einarsson sagði um þetta: „Ég hlýt að taka undir með háttvirtum þingmanni, við hljótum að geta gert kröfu um að ráðherrar geri betur og svari fyrirspurnum fyrr. Ég er hér með á blaði nokkur mál sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur óskað eftir að fá svör við og þau hafa enn ekki borist. Ég treysti því auðvitað að forseti minni ráðherrana á það. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir að svörin sem koma við skriflegum fyrirspurnum séu stundum svona í þynnri kantinum þá eru þau a.m.k. nákvæmari og fyllri en þau svör sem við fáum í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem ráðherrar geta leyft sér að koma hér trekk í trekk og drepa málum á dreif og hunsað algjörlega að svara. Þess vegna eru þessar skriflegu fyrirspurnir mikilvægar og það gildir auðvitað líka um skýrslubeiðnir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: