Þimgflokkur Sjálfstæðisflokksins ályktar:
Þingsályktunartillaga Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, var samþykkt á Alþingi í dag samhljóða. Með samþykkt tillögunnar ályktar Alþingi að lýsa því yfir að hungursneyðin í Úkraínu á árunum 1932 til 1933 hafi verið hópmorð.
Þingsályktunartillagan er fyrsta mál Diljár sem samþykkt er á Alþingi frá því hún tók fyrst sæti í kjölfar síðustu þingkosninga haustið 2021. Á þriðja tug þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi voru meðflutningsmenn Diljár á málinu.
Hungursneyðin í Úkraínu á árunum 1932 til 1933, sem oft er kennd við Holodomor, var af völdum alræðisstjórnar Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Rússar hafa þó alla tíð neitað því að um hópmorð hafi verið að ræða. Með samþykkt tillögunnar á Alþingi í dag bætist Ísland í hóp landa sem brugðist hafa við kalli Úkraínu og lýst því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð. Á meðal annarra ríkja sem gert hafa slíkt hið sama eru Bandaríkin, Þýskaland, Írland og Kanada.
Diljá segir það táknrænt að Alþingi hafi samþykkt tillöguna, nú þegar 90 ár eru liðin frá Holodomor, í skugga stríðsins í Úkraínu. ,,Það hefur sjaldan skipt meira máli að við sýnum Úkraínu stuðning, nú rúmu ári eftir innrás Rússa virðist stríðinu ekki ætla að linna. Samþykkt tillögunnar sendir skýr skilaboð um afstöðu Íslands gagnvart stríðinu og er mikilvægur og táknrænn stuðningur við íbúa Úkraínu,‘‘ er haft eftir Diljá.
Þingsályktunartillöguna má finna í heild sinni á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/153/s/0834.html