Slíkar ákvarðanir um fjárútlát í einstökum málum eru óheppilegar.
Enginn nú starfandi stjórnmálamaður kemst með tærnar þar sem Bjarni Benediktsson hefur hælana. Bjarni hefur náð einstökum árangri fyrir sína umbjóðendur. Ríka kaupsýslumenn og líka braskara. Bjarna tekst æ ofan í æ að vefja fólki úr öðrum flokkum um fingur sér. Honum hefur veist auðvelt með að stjórna Framsókn, Viðreisn og VG. Það var einungis Björt framtíð sem svelgdist á. Og beið bana af.
Í stórmerku viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksæoknara kemur margt og merkilegt fram. Hafi þeir báðir bestu þakkir fyrir.
Í einum kafla viðtalsins nefnir Helgi Magnús engin nöfn. Ég get ekki að því gert að ég sé Bjarna Benediktsson fyrir mér við lesturinn. Og það eðlilega. Hann valdi enn og aftur að vera í þeirri stöðu að skammta peninga til rannsókna á efnahagsbrotum. Helgi Magnús sagði:
„Í okkar smáa og fámenna kerfi koma reglulega upp stór mál sem setja alla verkefnastöðu á hliðina. Ef slík mál eiga að fá fullnægjandi framgang innan eðlilegs tíma þarf oft tímabundið að fjölga starfsmönnum og kosta meiru til einnig vegna annarra mála sem annars geta lent á bið. Til þess þarf að tryggja peninga og er hjá Alþingi en oftast með milligöngu ráðherra sem gera tillögur um fjárútlátin. Slíkar ákvarðanir um fjárútlát í einstökum málum eru óheppilegar. Í fyrsta lagi býður þetta upp á það að, ef við værum með þannig stjórnmálamenn að þeir vilji hafa áhrif á niðurstöðu stórra efnahagsbrotamála gegn fjársterkum aðilum sem gætu verið tengdir þeim á einhvern hátt, að þeir vilji nú kannski ekkert að þetta eða hitt málið fái framgang. Þetta býður líka heim þeirri hættu að stjórnmálamenn eru settir í þá aðstöðu að trúverðugleiki þeirra er alltaf undir.
Hæfi getur bæði virkað þannig að ef þú ert vanhæfur, vegna tengsla við einhvern aðila máls, þá getur þú misnotað aðstöðu þína þeim í hag sem er þér tengdur, en þú getur líka lent í því að til að sanna að þú sért ekki að misnota aðstæður þínar þá gengurðu lengra en tilefni er til og brýtur á þeim hinum sama. Hæfi snýst því ekki endilega um raunverulega misnotkun á stöðu einhverjum til góðs eða ills heldur að það sé hægt að treysta því að slíkt gerist ekki. Þetta er ómögulegar aðstæður fyrir bæði ákæruvaldið og stjórnmálamenn að vera í.“
Bjarni stendur vaktina nú sem fyrr.