„Það er búið að hækka stýrivexti Seðlabankans ellefu skipti í röð. Við erum með tæplega tíu prósent verðbólgu. Við erum með heimatilbúna verðbólgu og ríkisstjórnin gerir ekkert annað en að vísa ábyrgðinni frá sér. Það er alls ekki hún, hvað þá seðlabankastjóri, sem ber ábyrgð á þessu með að einhverju leyti mjög skrýtnum ákvörðunum varðandi húsnæðismál sem leiddu til húsnæðisbólu sem hefur síðan haft áhrif á verðbólguna. Þessi ákvörðun um að ríghalda í krónuna — það sem við í Viðreisn erum í raun að segja er: Eigum við ekki að treysta þjóðinni til að leiða okkur í næsta skref? Treystum þjóðinni til að stýra okkur stjórnmálafólkinu sem er sammála um að þetta ófremdarástand í efnahagsmálum er ólíðandi,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar á Alþingi.
„Tökum þá næsta skref, fáum þjóðina til að segja okkur hvort við eigum til að mynda að fullklára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, stærra er nú skrefið ekki og við það á enginn að vera hræddur,“ sagði hún og bætti svo við:
„En bara sú ákvörðun að viðhalda krónunni með fulltingi, að mér heyrist, ekki bara seðlabankastjóra heldur náttúrlega ríkisstjórnarinnar allrar, þá erum við líka að viðhalda þessu ástandi sem Gylfi Zoëga hefur bent á um þrjár þjóðir í landinu. Það er alltaf almenningur sem situr uppi með byrðarnar af álaginu af íslensku krónunni á meðan hin ósnertanlegu fá að valsa um samfélagið og í útlöndum líka. Það er pólitísk ákvörðun að hreyfa ekki við hinum ósnertanlegu í þessu samfélagi. Þetta er líka ákvörðun um að viðhalda hér fákeppni á mörgum sviðum. Er það tilviljun að við erum með tvo eða þrjá stóra aðila í olíusölu á smávörumarkaði, á bankamarkaði, vátryggingarmarkaði? Af hverju erum við ekki með Lidl og Aldi eða Danske Bank og Deutsche Bank? Það er út af ríkisstjórninni og hinum ósnertanlegu sem styðja þau sem viðhalda þessu ástandi. Og fyrir vikið er það alltaf almenningur sem situr uppi með svarta pétur.“