Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur bregst við svokallaðri örvæntingu í ferðaþjónustunni vegna hversu krónan er sterk. Ragnar skrifar á Facebook:
„Sterkt gengi er að „spilla fyrir“ ferðaþjónustu og sjávarútvegi er sagt. En heimilunum? Er sterkt gengi ekki gott fyrir þau? Af hverju er samúðin öll hjá fyrirtækjunum?
Sterkt gengi er afleiðing af velgengni í atvinnulífinu. Mikið innstreymi gjaldeyris frá því sjálfu er ástæðan. Afkoman er „sjálf-regúlerandi“ að þessu leyti. Eiga stjórnvöld að sinna óskum eigenda fyrirtækjanna um að halda genginu niðri með handafli til að gróðinn haldist hjá þeim, en ekki almenningi?
Allir vita að endurgjaldslaus „fénýting“ náttúrunnar og áníðsla á henni gengur ekki. Stjórnvöld áttu að standa í lappirnar og koma fram gjaldtöku sem í senn hefði dregið úr aðstreymi eða amk. aukningu þess, samhliða því að afla tekna til uppbyggingar. Það er vesaldómur að geta ekki staðið gegn þrýstingi hagsmunaaðila.
Sterkt en stöðugt gengi er mikið, já eitt mesta, hagsmunamál almennings. Fleiri greinar en ferðaþjónusta þurfa að þrífast. Nú verða hugsanlega áföll vegna afskipta- og aðgerðaleysis nýfrjálshyggjufólks sem engin mistök hefur viðurkennt og ekkert lært.“