En þetta er ekki hægt nema að breyta samfélaginu.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Auðvitað! Þetta samrýmist alveg stefnu Sósíalistaflokksins. Almenningur er skynsamur og vill halda uppi góðu velferðarkerfi fyrir alla, eins og þessi könnun sýnir. Það er bara ríka fólkið sem vill ekki borga skatta og þrýstir á ríkisstjórnina um lækkun skatta. Landsmenn vilja að auknu fjármagni verði varið í almannatryggingar og velferðarmál og yfirgnæfandi stuðningur er við að hið opinbera auki útgjöld fremur en að lækka skatta. Þetta er sósíalismi. Hann er skynsamur. Betri velferð, betra samfélag. Það kemur alltaf betur út fjárhagslega og fyrir andlega og líkamlega heilsu fólk. Og það er það sem landsmenn vilja. En þetta er ekki hægt nema að breyta samfélaginu.
Það er ekki bæði haldið og sleppt. Það er ekki hægt að halda bæði í markaðsdrifið kapítalískt hagkerfi sem byggir á hámarksgróða fyrir suma og skapa góða velferð fyrir alla. Þess vegna er ekki hægt að velja flokka sem nú er á Alþingi, því þeir vilja ekki gera neinar grundvallarbreytingar. Og ekki heldur breyta þeim framleiðsluaðferðum kapítalismans sem hafa skapað þá hamfarahlýnun sem ógnar lífi á jörðinni. Sósíalistaflokkurinn er eini valkosturinn. Er hann róttækur? Já kannski, en í mínum huga aðallega skynsamur.