- Advertisement -

Almenna leigufélagið dregur í land

VR og Almenna leigufélagið hafa átt uppbyggilegar umræður síðustu daga um framtíð íslensks leigumarkaðar. Leigumarkaðurinn hér á landi er enn smár í sniðum og var lengi skammtímalausn fyrir fólk þar til það gat komið sér upp eigin húsnæði. Á síðustu árum hefur hins vegar orðið viðhorfsbreyting sem kallar á nýja nálgun. Æ fleiri vilja sjá leigumarkaðinn sem raunhæfan valkost til lengri tíma með húsnæðisöryggi og verðstöðugleika.

Hækkun á leigu íbúðarhúsnæðis varð til þess að VR og Almenna leigufélagið ræða nú hvernig hægt er að tryggja betur stöðu leigjenda. Almenna leigufélagið lýsir því yfir að það muni draga til baka fyrirhugaðar hækkanir leigu sem áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur mánuðum. Auk þess að vinna að breytingum á leigusamningum félagsins með það að markmiði að bjóða samninga til lengri tíma en þekkst hefur á almenna markaðnum, þar sem tryggt er húsnæðisöryggi og stöðugra leiguverð. Lengri leigusamningar verða kynntir sérstaklega í byrjun mars á þessu ári.

Ljóst að breytinga er þörf. Háir vextir þrýsta á leiguverð, hvort sem er í félagslega kerfinu eða á hinum almenna markaði. Þegar við bætist óstöðugt lóðaframboð og hár kostnaður við byggingaframkvæmdir dregur úr leiguframboði á viðráðanlegu verði fyrir hinn almenna launamann.

Íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekki tekið virkan þátt í leigumarkaði á Íslandi þrátt fyrir takmarkaða fjárfestingarmöguleika innanlands síðustu ár. Þátttaka lífeyrissjóða og annarra langtímafjárfesta í fjármögnun leigufélaga gæti skapað grundvöll fyrir lægri leigu, stöðugra leiguumhverfi og auknu húsnæðisöryggi leigjenda. Það er báðum aðilum til hagsbóta – leigjendum og leigusölum – að sterkir innlendir fjárfestar komi að uppbyggingu íslensks leigumarkaðar með langtímahagsmuni leigjenda að leiðarljósi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: