„Af einhverri ástæðu, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segi öll sín fjárlög ábyrg, þá hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti 14 sinnum í röð. Af einhverri ástæðu hafa stýrivextir verið 9,25% í meira en ár, verðbólga yfir markmiði í fjögur ár og hallarekstur á að standa í níu ár. Halli fyrir heimsfaraldur, halli eftir heimsfaraldur. Það er eiginlega alltaf faraldur í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Spár gefa til kynna að markmið stjórnvalda um verðbólgu náist ekki fyrr en eftir tvö ár, haustið 2026,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.
„Við vitum að verðbólguvæntingar eru sérstakt vandamál og það vantar að hér heyrist skýr tónn um markmiðin til að ýta undir væntingar. Við heyrum ráðherra segja að þetta sé allt að koma en ég spyr: Hverjar eru væntingar ráðherra um áhrif þessara nýju fjárlaga á verðbólguna? Liggja fyrir töluleg markmið um árangur? Lykilspurningin er kannski: Telur ráðherra að þetta fjárlagafrumvarp hans muni stuðla að stýrivaxtalækkun hjá Seðlabankanum á næsta fundi þann 2. október?“
Sigurður Ingi svaraði:
„Við byggjum að sjálfsögðu einfaldlega á opinberum þjóðhagsspám Hagstofunnar. Við sjáum síðan að Seðlabankinn leggur fram sína spá og við höfum birt í gögnum okkar hvernig það er. Þau gögn eru síðan akkúrat sömu gögnin og við notum við vinnuna við fjárlagagerðina. Samkvæmt þeim, ef sá taktur heldur áfram, fer verðbólgan áfram lækkandi á næsta ári í þeim sama takti og hún rauk upp frá árinu 2020, náði toppi í janúar eða febrúar 2023 og er síðan á sömu hröðu leið niður. Þetta er svona eins og vestfirskt eða austfirskt fjall, mjög bratt upp öðrum megin og mjög bratt niður hinum megin. Við erum á þeirri leið og þess vegna heitir fjárlagafrumvarpið „Þetta er allt að koma“. Það er ekki lengri tími en svo að það tók verðbólguna að fara í hæstu hæðir sem hún virðist vera að fara niður, ekki enn þá en það er mikilvægt að við náum að viðhalda þeirri stöðu. Það er einfaldlega, vil ég segja, mikilvægt að úr þessum sal sendum við þau skilaboð að þær áætlanir sem við erum með hér og þau opinberu gögn sem við þó byggjum á — þó að við séum hugsanlega efins um að þau hafi í fortíðinni skilað okkur nákvæmlega réttu í þensluástandi en við höfum meiri trú á því og við erum meðvituð um að þau séu nú að skila okkar réttu — að við séum ekki að senda röng skilaboð úr þessum sal. Við ætlum að standa við áætlanirnar því að ef við stöndum við áætlanirnar ganga þessar spár eftir. Þá er verðbólgan komin þannig niður að í lok næsta árs verður 30 millj. kr. óverðtryggt húsnæðislán búið að lækka um 50.000 í greiðslubyrði á mánuði. Þetta er nefnilega allt að koma, háttvirtur þingmaður.“