- Advertisement -

„Allt tal og fabúleringar um kostnað er yfirskin“

Það er langt á milli Pírata og Miðflokksins. Því er einnig langt á milli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Birgis Þórarinssonar. Skoðanamunurinn kom vel í ljós þegar þingið ræddi mál Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um; „aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi“.

„Mér þykir líka leitt að heyra hversu óheiðarlegur málflutningurinn gagnvart þessari tillögu hefur verið. Það er ekki svo að háttvirtir þingmenn Ásmundur Friðriksson eða Birgir Þórarinsson hafi einhverjar gríðarlegar áhyggjur af kostnaði hér. Þeir eru einfaldlega á móti þungunarrofi og eru þar af leiðandi á móti þessari tillögu. Það er óheiðarlegt að tala um þetta einhvern veginn öðruvísi. Við skulum bara orða hlutina eins og þeir eru, það er þá bara gert á þessum forsendum,“ sagði Þórhildur Sunna og bætti við:

„Allt tal og fabúleringar um kostnað er yfirskin. Það er líka alveg ótrúlegt hvað þeir háttvirtir þingmenn sem töluðu um kostnaðinn sem þetta myndi fela í sér, höfðu lítið um kostnaðinn að segja. Þeir voru fljótir að bakka og höfðu raunar ekki hugmynd um um hvað þeir voru að tala, enda snýst þetta ekki um kostnað fyrir þeim. Þetta snýst um hugmyndafræði, að hafa stjórn á líkama kvenna. Það er ástæðan fyrir því að þessir háttvirtir þingmenn eru á móti þessari tillögu, þeir eru á móti þungunarrofi. Það væri þá eðlilegra að þeir viðurkenndu það, gengjust við því og það væri hægt að tala við þá á þeim forsendum en ekki með einhverju bulli, einhverri afsökun, einhverjum óheiðarleika,“ sagði Þórhildur Sunna.

Birgir Þórarinsson gat ekki setið á sér og sagði:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef bara aldrei heyrt annað eins.

„Ég get ekki á mér setið að koma hér og mótmæla þessum málflutningi frá háttvirtum þingmanni Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem sakar mig um óheiðarleika fyrir að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og kostnaði sem af þessu máli gæti hlotist fyrir ríkissjóð. Hvers lags málflutningur er þetta, herra forseti? Ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Ég sit í fjárlaganefnd og ber ábyrgð á því að viðhafa ráðdeildarsemi í fjármálum ríkissjóðs og ég hef sýnt fram á það hér að þetta mál getur haft aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég er búinn að sýna fram á það, m.a. með fyrirspurn sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra fyrir nokkru um það hvað væri útistandandi af kostnaði sem hlotist hefur af aðgerðum fyrir útlendinga við Landspítala – háskólasjúkrahús. Það eru hundruð milljóna. Ég sit því ekki undir því að ég sé sakaður um óheiðarleika í þessari umræðu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: