„Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Efla á nýsköpun í heilbrigðismálum þannig að Ísland verði í fremstu röð og nýti sér nýjustu tækni á þessu sviði, þ.m.t. fjarlækningar.“
Þetta eru beinar tilvitnanir í stjórnarsáttmálann. Víst er að Svandísi Svavarsdóttur hefur ekki tekist sem best upp.
Í fréttum dagsins í Mogganum segir: „Erfitt hefur reynst að manna störf á skurðstofum Landspítalans að undanförnu og má rekja vandann meðal annars til styttingar vinnuvikunnar. Þetta segir Karl Andersen, forstöðumaður hjarta- og æðaþjónustu Landspítalans.
„Aðgengi að skurðstofum á Landspítalanum er minna en þarf að vera og það er vegna manneklu, fyrst og fremst meðal hjúkrunarfræðinga. Þetta er líka vandamál og hefur verið lengi á gjörgæslunni,“ segir hann. Undirmönnun á gjörgæslu gerir það að verkum að sjúklingur á ekki möguleika á að leggjast inn á gjörgæslu eftir aðgerð og því frestast aðgerðir.
Færri hjartaskurðlæknar eru starfandi á spítalanum en áður. Tveir eru nú í fullu starfi en fyrir ári voru þeir fjórir. Tveir hafa hætt störfum á síðastliðnu ári. Þó er von á einum hjartaskurðlækni í hlutastarf í september. Til þess að sporna við skortinum hafa erlendir skurðlæknar komið til landsins og tekið að sér afleysingavinnu á spítalanum.
„Við höfum verið að fá lækna sérstaklega frá Svíþjóð, fólk sem við þekkjum vel,“ segir hann. Slíku fylgir nokkur kostnaður en læknarnir koma oftast í eina og eina viku í senn. „Það er samdráttur milli ára núna í fjölda aðgerða, þannig að við þurfum ekki eins marga skurðlækna. Full mönnun myndi ég segja að væru fjórir skurðlæknar en við erum að ná upp í það með afleysingafólki, á meðan svona mannekla er.“
Af þessu má sjá að lífshættulega veikt fólk er sett í mikla óvissu. Heilbrigðiskerfi sem ætlað er að samanburð við að besta í heiminum er mjög fjarri því sem best gerist.