„Það ríkir eitthvert undarlegt upplausnarástand í rekstri Reykjavíkurborgar. Ekki eru margir mánuðir frá því að allt var sagt í himnalagi í rekstrinum og að framundan væru bjartir tímar. Þetta var fyrir kosningar og nú er komið í ljós að reksturinn er afleitur og útlitið mjög slæmt,“ segir í leiðara Moggans í dag.
„Nú kann að vera að svo sé, að minnilhlutinn fái aldrei tíma til að kynna sér mál og að upplýsingar um lánamálin séu jafnvel leynilegar, hvers vegna svo sem það er. Það rifjar raunar upp fleiri atvik af sama tagi þar sem meirihlutinn í borginni afgreiðir stór mál viðskiptalegs eðlis með leynd og felur upplýsingar í lokuðum herbergjum sem enginn má fara inn í nema bundinn trúnaði þannig að borgarbúar fái sem minnstar upplýsingar. En þegar rekstur borgarinnar er kominn í þær ógöngur sem raun ber vitni og hringlandahátturinn slíkur að upplýsingagjöfin er endurskoðuð og snúið algerlega á haus á fáeinum vikum, þá er meira en tímabært að bæta upplýsingagjöfina þannig að borgarbúar geti kynnt sér allt sem að baki býr og myndað sér skoðun á ástandinu í stað þess að þurfa aðeins að treysta á spunameistara meirihlutans og þær „upplýsingar“ sem þeir kjósa að veita hverju sinni,“ segir í lok leiðarans.