Í skýrslu um kostnað vegna framkvæmda við braggann kemur skýrt fram og áberandi að lög og reglur um skjalastjórn opinberra stofnana voru þverbrotin.
Allt virðist hafa verið í fullkomnu kaldakoli við endurgerð braggans. Ekki stóð steinn yfir steini í allri framkvæmdinni. Þó Dagur borgarstjóri hafi reynt hvað hann getur að þvo eigin hendur er víst að hann þarf meira til. Engin ástæða er þó til að halda að hann, eða aðrir í meirihlutanum, telji þetta mál vera brottrekstrarsök æðsta embættismann borgarinnar.
Það yrði svo „óíslenskt“.
Er búið að hylja slóðina?
Upplýst er í skýrslunni að skjalastjórn vegna braggans var afar ófullnægjandi og að nánast engin skjöl né fundargerðir um verkefnið hafi fundist í skjalavörslukerfi borgarinnar. Ítrekar Borgarskjalasafnið á vefsíðu sinni hversu gífurlega mikilvægt það er að farið sé eftir þeim ferlum og lögum sem varða skjalastjórn og skjalavistun. „Ekki einungis til að uppfylla lögbundna starfshætti og reglur heldur ekki síður til að tryggja rekjanleika mála og upplýsingar um ákvarðanir og úrvinnslu þeirra.“
Í skýrslunni er einnig bent á að tölvupóstar starfsmanna er tengjast verkefninu voru óaðgengilegir og að tölvupóstum einstakra aðila hafi þegar verið eytt. Samkvæmt lögum um skjalastjórn er óheimilt að varðveita gögn í tölvupósthólfum og ber að færa tölvupósta er varða málsmeðferð hjá Reykjavíkurborg í skjalasafn. Það var ekki gert.
Borgarstjórinn fyrrverandi, Davíð Oddsson, skrifar:
„Meirihlutinn reynir að láta eins og bragginn sé undantekning. Ástæða er til að óttast að það sé öðru nær. Nýlega kom fram að opinber verkefni fara að meðaltali 60% fram úr áætlun. Mun það breytast? Má búast við að allt í einu verði farið að bera virðingu fyrir peningum, sem koma úr vösum borgaranna? Hver verða svörin þegar næsta framúrkeyrsla kemst í hámæli? Vissi þá enginn neitt heldur? Verður þá engin gögn að finna um eitt eða neitt? Þessu máli er hvergi nærri lokið.“