Fjölnir og Katrín:
Fjölnir: „…að setja plástur á sárið.“
Katrín: „…í það að efla löggæsluna…“
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eru fjarri sammála þegar þau tala um eitt og hið sama. Tilvitnun í Katrínu er sótt í nýlega ræðu hennar á Alþingi og það sem sótt er til Fjölnis er í grein sem hann skrifaði og er að finna á heimasíðu Landssambandsins. Þess ber að geta þau eru pólitískir samherjar í Vinstri grænum.
Fjölnir:
„Það sem helst hefur verið gert er að setja af stað ýmis átaksverkefni sem hafa verið til þess fallin að setja plástur á sárið. Slík verkefni hafa verið sett í gang þegar við hefur blasað að í óefni er komið. Þar má nefna átak í rannsóknum á kynferðisbrotum, átak í heimilisofbeldismálum og átak í fjármunabrotum, þegar Ísland var komið á gráan lista alþjóðlegra samtaka. Núna síðast hefur verið ráðist í átak til að takast á við skipulagða brotastarfsemi, sem því miður virðist orðin tóm. Ég fullyrði að ekki væri þörf á að fara reglulega í átaksverkefni ef lögreglan á Íslandi væri eðlilega mönnuð.“
Katrín:
„Það er kannski tvennt sem mér finnst mikilvægt að ræða í þessu samhengi. Þegar háttvirtur þingmaður nefnir hér sérstaklega kynferðisbrot þá var í upphafi þessa kjörtímabils strax farið í aðgerðir til að styðja við rannsókn og meðferð kynferðisbrota hjá hinu opinbera. Það tekur að sjálfsögðu tíma að bera árangur. En það var bæði farið í það að efla löggæsluna og sérstakt viðbótarfjármagn var veitt til að bæta við stöðugildum hjá lögreglunni til að öll lögregluembætti landsins væru í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Lagðir voru til sérstakir fjármunir í verklagsreglur og rannsóknarbúnað.“