- Advertisement -

Allt flæðandi í mannaskít samt er fasteignaverðið í hæstu hæðum

Unglingadrykkja, Borgarlínan og skítamix í vesturbænum er meðal efnis þessa vikuna

Sigurður, 15 ára ungmenni frá Grundarfirði er rauðhærðasti íslendingurinn 2017. Hann varð hlutskarpastur um titilinn á írskum dögum á Akranesi um síðustu helgi. Sigurður mætti galvaskur í útvarpsviðtal hjá Bylgjunni. Í lok viðtalsins var hann inntur þess hvort einhver fríðindi fylgdu því að bera titilinn. „Já fer til Írlands, svo vona ég að foreldrar mínir leyfi mér að fara á fyllerí,“ svaraði unglingurinn. Ég gat ekki annað en hlegið enda varð útvarpsmaðurinn hálf kjaftstopp og þakkaði honum fyrir komuna.

Rútufyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson, fékk á dögunum afhenta nýja rútu. Það er í rauninni ekkert merkilegt, nema fyrir þær sakir að rútan gengur fyrir rafmagni. Hún kemst 350 km á hleðslunni sem er algjör snilld. Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ráðast ekki í kaup á slíkum rútum og virkja borgarlínuna á mjög umhverfisvænan hátt. Ef vilji er fyrir hendi þá er ekki nauðsyn að eyða tæpum 200 milljörðum í verkefnið. Hver svona rúta kostar 65 milljónir og segjum svo að keyptar yrðu 20 slíkar þá gerir það 1,3 milljarða. Ekki þarf að leggja teina á akbrautir á höfuðborgarsvæðinu á kostnað einkabílsins með tilheyrandi auknum umferðaþunga. Við megum ekki gleyma því að grófleg áætlun er að ná 12% íbúa á höfuðborgarsvæðinu muni nýta sér þennan samgöngumáta. Hinir verða á einkabíl. Þá vekur það athygli að borgarstjórnarmeirihlutinn vill Reykjavíkurflugvöll út í Hvassahraun, en ekki er gert ráð fyrir því að borgarlínan nái þangað. Þar að segja að þeir sem nýta sér innanlandsflug í Hvassahrauni þurfa að koma sér talsverða vegalengd niður í Hafnarfjörð til að nýta sér þjónustuna. Við verðum að finna lausn á almenningssamgöngum og það er hægt með flæðandi strætóum í gegnum höfuðborgarsvæðið á 15 mínútna fresti með rafmagnsvögnum.

Ég vona að ekki nokkur sála á klakanum hafi misst af greininni sem Smartland birti í vikunni. Þar á bæ var eytt tíma í að þýða grein úr The Guardian. Greinin fjallaði um bréf frá konu sem leitaði ráða þar sem kynferðisleg löngun hennar í eiginmann sinn er við frostmark. Eftir áratuga hjónaband er neistinn horfinn hjá aumingja konunni og blaðamaðurinn gerði sitt besta til að hughreysta hana og benda henni á að hún er ekki eina frostrósin í þessum heimi. Já gúrkutíðin er slík að staffið í Morgunblaðshöllinni situr og þýðir slíkar greinar. Það versta við þessa lágkúru er að ef þessi grein væri við hlið greinar um fjöldamorð í Sýrlandi, þá myndi frostrósin fá meiri lesningu.

Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, kom út úr skápnum í vikunni. Hann er fyrsti framsóknarmaðurinn sem viðurkennir það opinberlega að eiga aðildarkort í Costco. Það er í fersku minni þjóðarinnar þegar Sigrún Magnúsdóttir, fyrrum umhverfisráðherra lýsti því yfir að hún ætti ekki eftir að heimsækja verslunina. Kaupa þar baneitrað útlenskt kjötmeti og annan viðbjóð frá Bandaríkjunum. Spurning hvort þessi svik við bændastéttina og íslenskar búvörur verði honum að falli úr formannsstólnum á eftir að koma í ljós síðar.

Ástandið í vesturbænum er svakalegt. Rottugangur, KR eru ekki efstir í boltanum og allt flæðandi í mannaskít. Samt er fasteignaverðið í hæstu hæðum og samkvæmt könnunum vilja flestir setjast þar að. Vesturbærinn er yndislegur þrátt fyrir óargadýr í bakgörðum og óþefinn í loftinu, en öllu gríni slepptu þá minnir þetta kúkaatvik okkur á að umhverfismálin sitja oft á hakanum- þó svo að VG sé við stjórnartaumana.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: