- Advertisement -

Allt að verða uppselt á Austurlandi

„Okkur vantar allar hendur upp á dekk, til að standa undir þessum vexti. Ég veit hreinlega ekki hvernig fyrirtækin ætla að leysa þetta. Við gerum víst ekki mikið án starfsfólksins í þessari atvinnugrein,“ segir María Hjálmarsdóttir hjá Áfangastaðastofu Austurlands.

Nú er svo komið að nánast öll gisting á Austfjörðum er uppseld í sumar og stórar ferðaskrifstofur hafa tekið ferðir úr sölu þar sem enga gistingu er að fá. María ræddi vinsældirnar við Fréttablaðið.

„Slíkan áhuga höfum við ekki fundið svona sterkt áður. Ég veit til dæmis að nær öll hótel hérna í kringum Egilsstaði eru að verða fullbókuð. Það er eitthvað um laus herbergi í öðrum bæjarfélögum á Austfjörðum, en það gæti breyst hratt á næstu vikum. En við getum ekki kvartað. Þetta er einfaldlega mjög jákvæð þróun fyrir svæðið,“ segir María og bætir við:

„Íslendingar flykktust auðvitað austur í veðurblíðunni í fyrrasumar. Allir þessir hlaupaviðburðir, reiðhjólakeppnir og afþreying. Þetta hjálpar allt til. Það má eiginlega segja að við höfum komist á kortið í þessum blessaða faraldri,“ segir María.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: