Stjórnmál „Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa, uppbyggingu fjarskiptanets, stóraukinni ljósleiðaravæðingu og bættu raforkuöryggi.“ Þetta er bein tilvitnun í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stefnuyfirlýsingu sem þingmenn beggja stjórnarflokkanna samþykktu þegar ríkisstjórnin var mynduð.
Nokkrir þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa sagst vera andvígir fyrirhuguðum flutningum Fiskistofu til Akureyar. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra svarar þeim í Fréttablaðinu í dag.
„Ég vil bara segja við þá þingmenn að lesa stjórnarsáttmálann og fara þá betur yfir þá byggðaáætlun sem þeir samþykktu.“
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við fréttastofu Rúv að eins og málið hafi verið lagt fram, grundvallist það ekki á mikilli skoðun. „Ef það á að fara í svona drastískar breytingar þá viljum við fá að vita nákvæmlega hvað vakir fyrir mönnum,“ segir Vilhjálmur. Hann veltir því upp hvort bæta eigi upp fyrir flutning útgerðarfyrirtækisins Vísis með því að flytja Fiskistofu til Akureyrar.
Varðandi viðbragða þingmanna Sjálfstæðisflokksins segir Sigurður Ingi. „Mér finnst þetta vera eðlileg viðbrögð þingmanna á höfuðborgarsvæðinu. Það sem hins vegar skiptir mestu máli er að þetta er í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem skýrt er kveðið á um flutning opinberra starfa eða að heilu stofnanirnar verði fluttar á landsbyggðirnar. Einnig er farið yfir þetta í byggðaáætlun sem var samþykkt á síðasta þingi,“ segir Sigurður Ingi.
Vilhjálmur Bjarnason óttast að þekking kunni að tapast. Hann bendir á mikilvægi stofnanaminnis, þá þekkingu sem starfsfólk býr yfir. Hætti margir við flutningiNn tapist þekking. „Menn verða að grundvalla það á mjög nákvæmri athugun ef það á að rífa upp heila stofnun, hvort sem henni er skipt eða hún flutt á milli landshluta,“ segir Vilhjálmur.
Auk Vilhjálms hafa þrír aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar. Það eru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Brynjar Níelsson og Jón Gunnarsson.
Blaðamaður Fréttablaðsins spyr Sigurð Inga hversu mörg hann telji að leggist af í Hafnarfirði og flytjist til Akureyrar. „Við höfum verið að skoða það, að þetta verði á bilinu 30 til 35 störf. 40 störf yrðu algjört hámark að okkar mati.“
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir líka: „Kanna þarf kosti þess að nýta aðferðir og reynslu Norðurlandaþjóða við að treysta byggð, auka verðmætasköpun og fjárfestingu og fjölga störfum á landsbyggðinni meðal annars með skattalegum hvötum.“
Sigurður Ingi segir ef vanti lagastoð fyrir flutningi Fiskistofu leiti hann til Alþingis um lagabreytingar svo flutningurinn verði að veruleika. Setji einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á mói málinu, eru allar líkur á að einhverjir þingmenn minnihlutaflokkanna samþykki flutninginn til Akureyrar.