Allir á móti húsnæðisstefnunni
- allur minnihlutinn í borgarstjórn er á móti húsnæðisáætlun, sem var samþykkt á fundi borgarstjórnar.
„Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár,“ þetta kemur fram í bókun meirihlutans í borgarstjórn þegar samþykkt var húsnæðisáætlunnar til ársins 2020.
„Reynslan hefur sýnt að áætlanir meirihlutans í húsnæðismálum standast engan veginn og því er óábyrgt að samþykkja enn eina áætlunina frá meirihlutanum í Reykjavík. Því greiða borgarfulltrúar minnihlutans, allir sem einn, atkvæði gegn þessari húsnæðisstefnu,“ segir í bókun minnihlutans.
Meirihutinn er hins vegar ánægður með áætlunina: „Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga. Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur.“
„Síðustu þrjú árin hafa borgarbúar orðið vitni að endalausum leiksýningum borgarstjóra þar sem hann þylur upp áætlanir um fjölgun íbúða á vegum fasteignafélaganna í borginni,“ segja fulltrúar minnihlutans.
Félagsleg blöndun um alla borg
Meirihlutinn segir: „Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar hratt, byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi og um 4.000 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli. Auk þess eru svæði fyrir rúmlega 9.000 íbúðir í þróun. Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur og búsetu. Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Samhliða samþykkt húsnæðisáætlunar voru samþykktar tillögur sem lúta að hraðari uppbyggingu, betri og öruggari leigumarkaði og ódýrari íbúðum fyrir ungt fólk. Áætlunin og tillögurnar eru samþykktar til þess að tryggja félagslega blöndun um alla borg.“
Lóðaskorturinn er í boði meirihlutans
Minnihutinn segir hins vegar: „Hefðu tillögur sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn og flugvallarvinir hafa lagt fram um úthlutun lóða í Úlfarsárdal verið samþykktar væri allt annað ástand í húsnæðismálum í Reykjavík en nú er. Þá vantaði ekki 5.000 íbúðir í dag og þá væri húsnæðisverð ekki að rjúka upp langt umfram alla eðlilega verðþróun sem gerir það að verkum að ungt fólk getur ekki flutt í húsnæði í borginni og býr annað hvort enn í foreldrahúsum eða hefur flutt í nágrannasveitarfélögin. Lóðaskorturinn er í boði meirihlutans í Reykjavík sem hefur búið til húsnæðisvandann með einstrengingslegri þéttingar- og lóðaskortsstefnu og hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina ásamt borgarbúum fengið meira en nóg af endalausum áætlunum og glæruhúsum meirihlutans og hyggjast ekki taka þátt í enn einni leiksýningu borgarstjóra.“
-sme