- Advertisement -

Allir fengu leiðréttingu nema fátæka fólkið

Guðmundur Ingi Kristinsson:

„Skömmin er þeirra sem komu þessu fjárhagslega ofbeldis- og mannvonskukerfi á og viðhalda því.“

„Undir forystu Samfylkingarinnar var króna á móti krónu skerðing sett á og einnig sérstök uppbót sem skertist krónu á móti krónu sem er nú í boði ríkisstjórnarinnar, þ.e. 65 aurar á móti krónu. Þá voru einnig í boði Samfylkingarinnar sett lög eftir bankahrunið um að lækka bætur almannatrygginga um 10%. Var þetta gert með þeim formerkjum að þetta yrði leiðrétt við fyrsta tækifæri, um leið og betur áraði. Auðvitað var ekki staðið við það. Allir fengu leiðréttingu eftir á, einnig þingmenn og ráðherrar, en auðvitað ekki fátæka fólkið í almannatryggingakerfinu. Þetta var upphafið að þeirri kjaragliðnun sem síðan hefur stóraukist. Er nú svo komið að það vantar yfir 100.000 kr. á mánuði til fátæks fólks í okkar ríka samfélagi,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag.

„Í tíð ríkisstjórna sem hafa verið við völd eftir bankahrunið hefur einnig verið haldið áfram að búa til fátæktargildrur með því að hækka ekki ýmsar bætur á lífeyri og þá einnig stórauka skatta með því að hækka ekki persónuafslátt samkvæmt launavísitölu. Ef rétt hefði verið farið að og lífeyrislaunin, persónuafslátturinn og uppbætur hefðu verið uppfærðar samkvæmt launavísitölu, væru lægstu lífeyrislaun almannatrygginga um 400.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust, eins og frumvarp Flokks fólksins boðar. Yfir 10.000 börn á Íslandi búa við fátækt. Eitt barn sem elst upp í fátækt á Íslandi er einu barni of mikið. 24,1% íslenskra heimila eiga í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum, hvað þá að ná endum saman, og þá eru einnig meiri líkur á að börn utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt. Fátæka fólkið okkar er að leigja hreysi, óíbúðarhæfar íbúðir sem eru ekki boðlegar skepnum, hvað þá fólki með börn sem veikist síðan vegna vosbúðar og myglu og á ekki einu sinni fyrir mat fyrir börnin sín. Það er vonlaust að reyna að tóra á launum langt undir fátæktarmörkum í dag og það er ávísun á sárafátækt. Sárafátækt fólk á ekki fyrir húsaleigu og þau sem geta farið í röð eftir matargjöfum og fengið aðrar nauðsynjar frá hjálparsamtökum fyrir sig og börnin sín lifa með þeim í sárafátækt í boði ríkisstjórnarinnar,“ sagði Guðmundur Ingi og lauk ræðu sinni svona:

„Skömmin er þeirra sem komu þessu fjárhagslega ofbeldis- og mannvonskukerfi á og viðhalda því.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: