Algjört úrræðaleysið ríkisstjórnarinnar
Nú liggur þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir og hvergi er að finna aðgerðir fyrir heimilin í landinu vegna verðhækkana. Ráðherrar sem sitja í ríkisstjórn hafa samt ýjað að þessu, sagði Kristrún Frostadóttir á Alþingi í dag.
Fjárauki er kominn fram þar sem hvergi má finna fjárheimildir fyrir mótvægisaðgerðum. Ef gera á eitthvað á næstu sex mánuðum, ég ítreka sex mánuðum, þarf að samþykkja heimild á þessu þingi. Tíminn er að renna út. Ég vil því biðja virðulegan forseta um að grennslast fyrir um hvort það sé raunverulega svo að engin þingmál vegna ástandsins séu á leiðinni. Það staðfestir þá grun minn um að úrræðaleysið sé algjört og lítið sé að marka málflutning um mögulegar aðgerðir á næstunni. Ef til vill væri réttlátara að lýsa því bara yfir að ólíkt velferðarsamfélögunum í kringum okkur verði ekkert gert hér, sagði Kristrún.