„Hvaða raunkostnað er verið að miða við þegar hækkun á áfengi, flugfargjöldum, skóm og fatnaði svo einhverjir þættir í vísitölunni séu nefndir eru að hafa áhrif á rekstur leikskóla.“
Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Ég skal fúslega viðurkenna að ég skil ekki á hvaða vegferð bæjarstjórn Sjálfstæðismanna í Kópavogi er á, en núna hafa þau kynnt að gjaldskrá vegna leikskólagjalda skuli tengd vísitölu og leikskólagjöld eigi að taka breytingum ársfjórðungslega!
Já, núna munu fjölskyldur í Kópavogi sem eru með börn á leikskóla þurfa að þola hækkanir á leikskólagjöldum ekki bara einu sinni á ári heldur fjórum sinnum.
Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn kominn þegar kemur að skattahækkunum á almenning? Þessi breyting er klárlega ekki til góða fyrir barnafólk enda leggjast hækkanir vísitölunnar ofan á hverja aðra sem leiðir til meiri hækkunar en að gera það einu sinni á ári.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi telur þessa nálgun „…í það minnsta sýna fram á raunverulegan kostnað þjónustu sveitarfélaga og endurspegli nákvæmlega þá raunkostnaðarþróun sem verður í þjónustugjöldum sveitarfélaga,“ eins og kemur fram í þessari frétt.
Mitt mat er að hér er um algjört rugl af hálfu bæjarstjórans að ræða. Hvaða raunkostnað er verið að miða við þegar hækkun á áfengi, flugfargjöldum, skóm og fatnaði svo einhverjir þættir í vísitölunni séu nefndir eru að hafa áhrif á rekstur leikskóla.
Nei, ef eitthvað á að vera þá á að banna allar vísitölutengingar gjalda hjá sveitarfélögum og ríkinu og skylda á þessa aðila til að leggja fram sannanir fyrir útgjaldaaukningu sem veldur hækkun gjalda.
Munum að verðtrygging á opinberum gjöldum hjá ríkinu og sveitarfélögunum sem og allar vísitölutengingar við hækkun á neysluvísitölunni fóðra verðbólguna eins og enginn sé morgundagurinn.
Það er eins og áður sagði undarlegt að sjá stjórnmálaflokk sem kennir sig við að stilla skattahækkunum í hóf framkvæma svona gjörning og það á barnafólk!