Vinnumarkaður: Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti ASÍ, hefur ekki hug á að verða áfram forseti sambandsins. Hann ætlar að einbeita sér að formennskunni í Rafiðnaðarsambandsins. Hann opnar á að verða fyrsti varaforseti. Gunnar Smári skrifar fína grein um þetta á vef Samstöðvarinnar. Skrif Smára fara hér á eftir:
Algjör upplausn ríkir nú innan Alþýðusambandsins eftir að í ljós koma að landsbyggðarformenn innan Starfsgreinasambandsins vilja engan frið við kjörna forystu Eflingar og VR. Ljóst er að Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti, gafst upp á þessari einörðu afstöðu og hætti við framboð til forseta. Nú er staðan sú að Ólöf Helga Adolfsdóttir, fyrrum ritari Eflingar og stjórnarmaður í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar, er ein í framboði til forseta. Á þinginu sem var frestað lagði Ólöf Helga fram tillögu um að fulltrúum Eflingar yrði vísað af þinginu og naut til þess stuðninga landsbyggðarformannanna.
Kristján Þórður hafði unnið að því að byggja upp vettvang þar sem stærstu félögin innan Alþýðusambandsins hefðu eitthvert aðgengi að starfsemi þess. Hugmyndin var að endurvekja samninganefnd ASÍ, en þar eiga formenn landssambandanna og stærstu félagana sæti ásamt forseta og varaforsetum. Þetta var tilraun til að draga að sama borði styrk sambandsins og komast hjá því að láta komandi forsetakosningar snúast um átökin sem landsbyggðarformennirnir hafa kynnt undir.
ASÍ:
Þetta er í fyrsta sinn sem formaður Eflingar og forvera þess (Dagsbrún, Framsókn, Sókn, Iðja) á ekki sæti í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins og forvera þess, Verkamannasambandinu.
Það kom hins vegar fram á miðstjórnarfundum að landsbyggðarformennirnir sætta sig ekki við að forysta Eflingar hafi nokkur áhrif á starf ASÍ og vilja að áhrif VR verði sem allra minnst.
Þetta sést til dæmis af því að Efling á aðeins einn stjórnarmann af níu innan Starfsgreinasambandsins þótt félagar í Eflingu séu tæplega helmingur allra félaga innan sambandsins. Og þessi fulltrúi er ekki Sólveig Anna Jónsdóttir formaður félagsins. Hún náði ekki kjöri á þingi Starfsgreinasambandsins heldur Ragnar Ólason, sem er ekki kjörinn fulltrúi heldur starfsmaður félagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem formaður Eflingar og forvera þess (Dagsbrún, Framsókn, Sókn, Iðja) á ekki sæti í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins og forvera þess, Verkamannasambandinu.
Efnt var til kosningar um frambjóðendur Starfsgreinasambandsins til miðstjórnar Alþýðusambandsins fyrir skömmu. Þar hlutu kosningu í þessari röð: Eyþór Þ. Árnason formaður Hlífar í Hafnarfirði, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður Afls á Austurlandi, Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Guðbjörg Kristmundsdóttir formaður Verkalýðsfélags Keflavíkur. Tvo urðu jöfn í vali á sjötta sætinu, þau Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar á Selfossi og Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar í Skagafirði og vann Þórarinn hlutkestið.
Efling er aðili að Alþýðusambandinu í gegnum Starfsgreinasambandsins. Undir venjulegum kringumstæðum yrði þessi listi sjálfkjörinn. Það yrði þá í fyrsta sinn frá stofnun Alþýðusambandisns að formaður Eflingar og forvera þess (Dagsbrún, Framsókn, Sókn, Iðja) ætti ekki sæti í miðstjórn ASÍ. Í dag og fram að þingi situr Agnieszka Ewa Ziólkowska fyrrum varaformaður Eflingar í miðstjórninni. Hún verður því líklega síðasti fulltrúi þessa stóra félags í miðstjórn Alþýðusambandsins.
Það vekur athygli að Vilhjálmur Birgisson formaður SGS lenti í fjórða sæti í þessari kosningu. Hann hefur því ekki umboð sambandsins til að sækjast eftir embætti varaforseta.
Agnieszka er eins og Ólöf Helga, og reyndar Finnbogi og Halldóra einnig, stjórnarmaður í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar. Halldóra er í dag 2. varaforseti Alþýðusambandsins og hafði metnað til að halda áfram sem einn af varaforsetunum og brást illa við þessari niðurstöðu.
Það vekur athygli að Vilhjálmur Birgisson formaður SGS lenti í fjórða sæti í þessari kosningu. Hann hefur því ekki umboð sambandsins til að sækjast eftir embætti varaforseta. Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur náði ekki inn á listann, en hann á sæti í miðstjórn í dag. Og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík er þarna heldur ekki, en þessir þrír voru í fylkingu VR og Framsýnar við gerð lífskjarasamninganna, þess hóp sem dró þær viðræður áfram.
Það mátti sjá undirbúning fylkinga fyrir framhaldsþing ASÍ líka á stjórnarfundi VR í vikunni. Þar sóttist Halla Gunnarsdóttir eftir að verða varaformaður VR en náði ekki kjöri, Selma Björk Grétarsdóttir sem styður Ragnar Þór Ingólfsson formann var kosin. Halla er hins vegar í fylkingu andstæðinga forystufólks VR og Eflingar og vann náið með landsbyggðarformönnunum þegar hún var framkvæmdastjóri ASÍ.
VR á aðild að Alþýðusambandinu í gegnum Landssambands verslunarmanna, þar sem VR er yfir 95% af afli og styrk. VR mun því í raun velja frambjóðendur landssambandsins til miðstjórnar.
Á þinginu sem var frestað í haust gengu fulltrúar Eflingar út þegar ljóst var í hvað stefndi og meirihluti fulltrúa VR og Verkalýðsfélags Akraness. Staðan í dag er í raun óbreytt. Tilraunir Kristjáns Þórðar til að bera klæði á vopnin gengu ekki eftir. Eins og sést á frambjóðendum SGS til miðstjórnar ætla landsbyggðarformennirnir ekki að bjóða Eflingu upp á neinn frið. Þar er meira að segja vilji til að kjósa þær Ólöfu Helgu og Agnieszku til embætta sem fulltrúa Eflingar þótt félagar í Eflingu hafi hafnað þeim í kosningum.
Það má því búast við áframhaldandi upplausn innan Alþýðusambandsins. Það er orðið ljóst að rót hennar er að landsbyggðarformenn innan SGS sætta sig ekki við þá forystu sem félagar í Eflingu hafa valið sér.
Myndin er af Ólöfu Helgu og Agnieszku, sem landsbyggðarformenn SGS vilja að sé forysta Eflingarfólks innan SGS og ASÍ.