„Algert hneyksli“ í Kastljósi
Eiríkur Rögnvaldsson hefur gert athugasemdir um framgöngu Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi gærkvöldsins. Þar talaði Jóhanna Vigdís við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra.
Eiríkur skrifar á Facebook:
Mér fannst fáfræði og fordómar umsjónarmanns Kastljóss í kvöld algert hneyksli, þar sem hún gaf sér að kennarar í framhaldsskólum og háskólum væru ekki að vinna þótt skólastarf sé ekki með hefðbundnum hætti:
„Hvað með til dæmis eins og laun kennara og annars starfsfólks eins og til dæmis í framhaldsskólum og háskólum þar sem engin kennsla fer fram?“
„En þið ætlið að tryggja þessu fólki laun á meðan það er engin kennsla í þessum skólum?“
Ég er með ansi marga framhaldsskólakennara og háskólakennara á vinalista mínum á Facebook, auk þess sem ég er í ýmsum Facebook-hópum og póstlistum kennara. Allir kennarar sem ég veit um eru upp fyrir haus í kennslu þessa dagana. Margir þeirra eru að tileinka sér nýjar kennsluaðferðir og það er mjög tímafrekt. Að fullyrða að kennarar séu ekki í vinnu, og velta því fyrir sér hvort þeir eigi að vera á launaskrá, er umsjónarmanni og RÚV til skammar.