- Advertisement -

Algert agaleysi í opinberu fjármálum

„Þetta er algert agaleysi í opinberum fjármálum,“ sagði Þorsteinn Víglundsson í þingræðu.

„Því miður virðist einfaldlega svo vera að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi staðið að fordæmalausri útgjaldaaukningu kunni hún sér engan veginn hóf áfram veginn og hér sé enn hlaðið í,“ bætti hann við.

„En ég vona svo sannarlega að einhver breyting verði á því og að við sjáum raunverulega að ríkisstjórnin geti unnið innan ramma fjárlaga með þeim varasjóði sem ætlað er að brúa bilið varðandi óviss eða óljós útgjöld og að við sjáum einhvern tíma viðbrögð hjá ríkisstjórninni á miðju fjárlagaári, t.d. þegar ljóst má vera að í stefni að afkomumarkmið náist ekki, að gripið verði til einhverra hagræðingaraðgerða. En það er kannski fullmikil bjartsýni að ætla þessari ríkisstjórn slíka ráðdeild í opinberum rekstri.“

Fyrr í ræðunni sagði Þorsteinn: „Ég var í hópi þeirra sem voru svo bjartsýnir að telja að fjáraukalög myndu heyra sögunni til með lögum um opinber fjármál, enda væri verið að skerpa verulega á utanumhaldi um rekstur ríkisins og því til viðbótar að leggja til sérstakan varasjóð til að ná utan um óvænt og ófyrirséð útgjöld. Samt sem áður virðist það ætla að verða viðvarandi löstur í rekstri ríkisins að hingað komi fram fjárauki á hverju ári og oft, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, er um að ræða útgjaldaliði sem hvorki eru óvæntir né ófyrirséðir, t.d. sígilt framlag til þjóðkirkjunnar, sem hefur ítrekað komið fram í fjárauka þó að vitað sé að fjármagn vanti til að mæta þeim skuldbindingum sem þar eru. Engu að síður hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum og ítrekað er komið með þau fram í fjárauka. Þess utan eru auðvitað ýmis smávægileg útgjöld tínd hér til sem eðlilegast hefði verið að tína út af varasjóði en einhverra hluta var vegna ekki gert.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: