Algengt að mönnum bjóðist mútur?
- það er jafnvel refsivert. Sigmundur Davíð verður að tala skýrar, segir Brynjar Níelsson.
„Það er hægt að skilja þetta þannig, auðvitað. En mér fannst hann ekki nógu skýr í orðum til að ég dragi þá ályktun alveg svona einsog ekkert sé,“ sagði Brynjar Níelsson, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis, í Bítinu á Bylgjunni, um orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, um að tilraunir til að bera á hann fé.
Brynjar var spurður hvort skilja megi Sigmund Davíð þannig að honum hafi verið boðnar mútur.
„Hann talar lengi um það, sem er bara ekkert óalgegnt í hagsmunabaráttu, að menn eru að berjast og bjóða…“ Þegar hér var komið var Brynjar stoppaður. Hann var greinilega að byrja að segja að ekki sé óalgegnt að mönnum, sem eiga í hagsmunabaráttu, sé boðnir peningar gegn því að þeir gefi eftir.
Þegar Brynjar var spurður hvort ekki væri best að Sigmundur Davíð tali skýrar, svaraði hann: „Stundum hefur maður á tilfinningunni í almennri umræðu að menn geri ekki greinarmun á mútum, því hann notar aldrei orðið mútur sjálfur. Hann segir aldrei að það hafi verið borið á hann fé. Það verður oft í umræðunni, þegar menn takast á og menn segja ég vil þetta og þá getur þú fengið þetta, þegar reynt er að ná samkomulagi. Það má ekki gera of mikið úr því og gera það að einherjum mútum eða hótunum. Þetta getur aðeins ruglað umræðuna.“
Þá var hann spurður hvort hann væri ekki að gera lítið úr málinu. „Já, ég vil gera lítið úr þessu nema ég fái þetta á hreint. Ég vil ekki gefa skyn að eitthverjum hafi verið mútað eða …“ Hér var Brynjar enn stöðvaður.
Hann sagði síðan að hann vilji að fyrrverandi forsætisráðherra segi nákvæmlega hvað gerðist. „Hann er búinn að segja hálfpartinn, eða gefa í skyn, að honum hafi verið mútað. Hann verður að segja þetta nákvæmlega hvað menn voru að reyna að gera.“
Brynjar, sem er hæstaréttarlögmaður og fyrrum formaður Lögmannafélags Íslands, segir þetta mál alvarlegt ef það er rétt. Og eins að það sé refsivert að bjóða mútur.
„Ég óttast að menn leggi misjafnan skilning í það sem fer fram á milli manna. Annar lítur svo á að það sé verið að bera á sig fé meðan annar segir, heyrðu við erum bara að reyna að ná samkomulagi við stjórnvöld, þetta snýst ekkert um þig persónulega. Fer eftir hvernig menn upplifa samskipti sín á milli.“