Borgarfulltrúi Pírata, Alexandra Briem, er ósátt við umræðu um of mikla ADHD-lyfjaneyslu hér á landi. Henni þykir sú umræða hreinlega skaðleg og illa ígrunduð því lyfin hjálpi mörgu fólki með þennan algenga sjúkdóm, ADHD, að breyta lífi sínu til hins betra:
„Mikilvægur punktur. Mér fannst umfjöllunin skelfileg og fara beint inn í einhverja neikvæða orðræðu sem miði að því að réttlæta að draga úr lyfjagjöf fyrir hóp fólks sem er með greiningu og þarfnast þessara lyfja til að fúnkera almennilega í sínu lífi.“
Alexandra er sjálf með ADHD-sjúkdóminn og er ekki ánægð með hertar reglur varðandi lyfin:
„Ég hef sjálf tekið átakanlega eftir áhrifum af með hertum reglum sem tóku gildi fyrir nokkrum árum. Ég má bara taka út einn mánuð í einu og fæ ekki að taka út næsta fyrr en hann er búinn, að það leiðir ítrekað til þess að ég sé lyfjalaus í nokkra daga.“
Og lyfjaleysið hefur slæm áhrif á líf Alexöndru, og líkast til slæm áhrif á líf allra sem þurfa þessi lyf:
„Það hefur bara raunveruleg áhrif á það hvernig mér gengur að sinna mínum verkefnum þá daga.“
Hún segir að hertar reglur og meira eftirlit með þessum lyfjum sé ekki eitthvað sem ADHD-sjúklingar eigi að þurfa að þjást útaf.
Nefnir að áðurnefndar takmarkanir á lyfjunum séu „til þess að hindra aðgang annarra ólöglega að lyfjunum. En það hlýtur að teljast vandamál með þau sem skrifa upp á lyfin, frekar en notendur sem eru að reyna að fara eftir reglunum.
Samt snúast allar aðgerðir um að gera okkur erfiðara fyrir og öll orðræða um að við séum að fá of mikið af lyfjum. Þessi umræða er á villigötum,“ segir Alexandra að lokum.