Fréttir

Aldrei friður um breytilegt veiðigjald

Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur sent inn umsögn um veiðigjaldafrumvarpið. „Ef útgerðin fengi sjálf að ákveða veiðigjaldið á frjálsum markaði gæti hún ekki kvartað um seinagang stjórnvalda við að aðlaga gjaldið breytingu á afkomu útgerðarinnar.“

By Miðjan

June 05, 2018

„Ef útgerðin fengi sjálf að ákveða veiðigjaldið á frjálsum markaði gæti hún ekki kvartað um seinagang stjórnvalda við að aðlaga gjaldið breytingu á afkomu útgerðarinnar, en það virðist vera tilefni framlagðs frumvarps. Veiðigjaldið tæki strax mið af stöðunni á hverjum tíma. Þjóðin, eigandi auðlindarinnar, ætti líka að verða sátt enda væri þá greitt markaðsgjald, „fullt gjald“ fyrir veiðiheimildirnar allt eins og tilgreint er í ákvæði um eignarrétt í stjórnarskránni, meira að segja þeirri núverandi,“ segir Þorkell Helgason stærðfræðingur í umsögn sem hann hefur skilað inn vegna veiðigjaldafrumvarpsins.

Þar segir einnig: „Í téðu frv. endurspeglast sá reginmisskilningur að veiðigjald sé skattur sem eigi að leggja á eftir efnum og ástæðum, sbr. afsláttinn sem fær heitið „persónuafsláttur“ í greinargerð með frv. Gjaldið er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða en sameiginlega auðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það færi eftir stöðu og stærð útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald, sem síbreytilegur skattur allt eftir því hvernig pólitískir vindar blása, verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi.“