- Advertisement -

Aldrei fleiri ferðamenn á Íslandi

ferdamenn_jul14Ferðamál Um 144.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 21.000 fleiri en í júlí í fyrra. Aukningin nemur 17% milli ára. Vart þarf að taka fram að aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér í júlí og nú og raunar aldrei fleiri í einum mánuði.
Bandaríkjamenn fjölmennir sem fyrr
Bandaríkjamenn voru líkt og í júní fjölmennastir eða 15,9% af heildarfjölda ferðamanna í júlí en næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 12,5% af heild. Skáru þessar tvær þjóðir sig nokkuð úr en næst komu Bretar (8,7%), Frakkar (7,4%), Danir (5,9%), Norðmenn (4,6%) og Svíar (4,4%). Samtals voru 10 fjölmennustu þjóðernin með 70% af heildarfjölda ferðamanna.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Bretum, Kanamönnum, Kínverjum og Svíum mest á milli ára. Þessar sex þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í júlí eða um 70% af heildaraukningu.
10fjolmennustu_jul14Tvívegis áður meiri fjölgun í júlí
Ferðamenn voru ríflega þrisvar sinnum fleiri í júlí í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002. Fjölgun hefur verið öll ár á þessu tímabili og tvívegis hefur þeim fjölgað meira á milli ára en nú, þ.e. í júlí 2007 og 2011.
Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá að frá árinu 2010 er góð fjölgun frá öllum svæðum. Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mest en þeir hafa nærri þrefaldast. Bretar og þeir sem taldir eru sameiginlega undir „Annað“ hafa u.þ.b. tvöfaldast. Nokkru minni fjölgun er frá Mið- og Suður Evrópu en þó 50%. Norðurlandabúum hefur fjölgað 30% frá árinu 2010.
markassvaedi_jul14546 þúsund ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hefur rúmlega hálf milljón ferðamanna farið frá landinu, nánar tiltekið 546.353 eða um 111 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 25,6% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum og Bretum hefur fjölgað mest, hvorum um sig um tæp 40%, Mið- og S-Evrópubúum um 16%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 30%. Norðurlandabúum hefur hins vegar ekki fjölgað í sama mæli eða um 10%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 39 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí síðastliðnum, um 6.200 fleiri en í júlí árið 2013. Frá áramótum hafa 224.443 Íslendingar farið utan eða 10,2% fleiri en á sama tímabili árið 2013.
Sjá nánar hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: