Mannlíf Allt gengur á afturfótunum hjá Þórunni. Við ferðumst inn í hugarheim hennar en nýliðnir atburðir hafa þvingað hana til þess að gera upp fortíð sína. Hún reikar úr einni minningu yfir í aðra þar sem samskipti hennar við hitt kynið í gegnum tíðina eru dregin upp á yfirborðið á fyndinn jafnt sem sorglegan máta.
Upprunalega kemur hugmyndin á bak við verkið frá Þórunni Guðlaugs. Sagan er sögð útfrá fyrstu persónu og er Þórunn því að túlka Þórunni á sviðinu. Margar af minningunum sem hún flakkar á milli koma frá henni sjálfri og eru úr hennar lífi en aðrar eru annað hvort sögur frá fólkinu í kringum hana og Natan eða eru hreinn skáldskapur. Áhorfandinn veit því aldrei hvað er byggt á raunveruleika og hvað ekki.
Samfarir Hamfarir snertir á ýmsum flötum af því hvernig ung kona upplifir sig í nútímasamfélagi og hversu mikil áhrif atvik úr fortíðinni hafa á hana enn þann dag í dag. Það er árið 2015 en ennþá þurfa konur að passa upp á dyggð sína ef þær vilja vera metnar af verðleikum sínum.
Hvað þýðir það að vera kona? Af hverju er það oft á tíðum svona mikil barátta? Hvers vegna mega konur ekki haga sér eins og karlmenn án þess að fá á okkur einhvern stimpil?
Verkið verður sýnt í Tjarnarbíói.