Aldrei áður annars eins halli
„Hallinn á ríkissjóði verður 320 milljarðar króna á næsta ári og hefur aldrei verið meiri í lýðveldissögunni. Það er bæði vegna þess að skattkerfið og afkomutryggingakerfin virka eins og þau eiga að virka í kreppu en líka vegna þess að stjórnvöld tóku þá pólitísku ákvörðun að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að verja grunnþjónustuna og alla þá miklu uppbyggingu sem þar hefur orðið á síðustu árum með almenna velsæld, nýsköpun og græna atvinnuþróun í forgrunni,“ segir meðal annars í áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Mogganum frá því í gær.
„Þetta var stórpólitísk ákvörðun sem er fjarri því að vera sjálfsögð í kreppu eins og dæmin sanna en ég hef mikla trú á að sé sú rétta við þessar aðstæður. Peningastefnan sem birst hefur í umtalsvert lægri vöxtum en áður hafa þekkst hér á landi hefur síðan stutt vel við þessar ákvarðanir. Þar er jafnframt á ferðinni stórt lífskjaramál en lægri vextir létta skuldsettum heimilum róðurinn við þessar erfiðu aðstæður.“
Greinin í Mogganum er mun lengri.