Aldraðir og öryrkjar hokri áfram
Katrín Jakobsdóttir stóryrt um stefnu ríkisstjórnar og stöðu þeirra fátækustu meðal okkar.
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.
Bið eftir réttlæti
„Fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig, er viðkvæðið, en allt stendur þetta til bóta. Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er um leið verið að neita því um réttlæti,“ sagði hún.
Er það réttlátt?
„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja biðina eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni. Þá ábyrgð þurfum við öll að axla,“ bætti hún við.
Og svo þetta: „En frumskylda stjórnmálamanna er við fólkið. Og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“
Þetta eru beinar tilvitnanir í ræðu Katrínar Jakobsdóttur, nú forsætisráðherra, á Alþingi í september 2017, í umræðum um stefnuræðu Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra.