Greinar

Álagsgreiðslur fyrir leikskóla-fólkið okkar strax!

By Miðjan

March 24, 2021

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Talað við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdarstjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í sjónvarpsfréttunum. Ég segi fyrir mína parta að það hefði verið áhugaverðara að öllu leiti að tala við starfsfólk leikskólanna sem á að mæta í vinnuna þó að öllum öðrum skólum sé skellt í lás og strangar fjöldatakmarkanir gildi í samfélaginu. Eins og þau hafa þurft að gera allt Covid-tímabilið. Þetta eru mest konur og stór partur þeirra tilheyrir þeim hópi sem einna lægst launin hefur á íslenskum vinnumarkaði. Álagið á leikskólunum var gríðarlega mikið áður en faraldurinn nam hér land en hefur verið tryllingslegt síðasta ár.

Starfsfólk leikskólanna er ómissandi starfsfólk. Sannleikurinn er að þau eru í hópi þeirra allra mest ómissandi. Ómissandi og ómetanleg. Og þurfa nú að halda áfram að mæta, óbólusett á launum sem endurspegla áhugaleysi valdastéttarinnar á högum þeirra, halda áfram að standa sína plikt.

Ég set hér með fram þá afdráttarlausu kröfu að starfsfólk leikskólanna fái myndarlega álagsgreiðslu frá Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum. Nú er tækifærið fyrir stjórana að sýna að þeir skilji hvaða störf eru undirstöðustörf og að þau sem vinna þessi störf eigi ekkert skilið nema endalausa virðingu sem endurspeglar það að samfélagið kemst ekki af án þeirra.

Álagsgreiðslur fyrir leikskóla-fólkið okkar strax!