Gamli refurinn Össur Skarphéðinsson hefur víða komið við í íslenskum stjórnmálum; þessi öflugi Samfylkingar-maður hreinlega hrópar hástöfum að nú sé kominn tími á formannskipti; Össur er með þetta allt á hreinu og vill fá Kristrúnu Frostadóttur í formannsstólinn hið fyrsta:
„Hvenær ætlar Samfylkingin að kalla þessa efnilegustu konu íslenskra stjórnmála til forystu? Hnífskarpur greinandi með pólitíska framtíðarsýn sem hefur svo sárlega skort síðustu árin, þegar flokkurinn hefur hrakist eins og sprek án sýnilegs sjókorts, og uppskorið fylgi í samræmi við það.“
Hann sendir netta pillu á þá sem vermt hafa stól formanns Samfylkingarinnar á undanförnum árum:
„Öfugt við síðustu formenn hefur hún erindi, sem nær bergmáli. Hvenær ætlar Logi formaður að láta nótt sem nemur og lýsa stuðningi við að Kristrún Frostadóttir verð leiðtogi flokksins sem fyrir 20 árum var helmingi stærri en Sjálfstæðisflokkurinn er í dag?“
Og Össur segir líka að „mín trú er að atgervi og geta Kristrúnar geti aftur lyft Samfylkingunni í oddaaðstöðu í íslenskum stjórnmálum. Spyrjið andstæðingana – eina manneskjan sem þeir vilja ekki sem formann er Kristrún.“