Gunnar Smári skrifar:
Verðmunur á lönduðum makríl á Íslandi og í Noregi bendir til að íslenskir útgerðarmenn hafi haft um 21,3 milljarð króna á núvirði af sjómönnum á árunum 2012-18. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hefur sýnt þessu áhuga, ekki talið það sitt hlutverk að gæta þess að þau sem fá aðgengi að auðlindinni fyrir brot af eðlilegu leiguverði svindli ekki á starfsfólki sínu.
Ef ráðherrum og alþingismönnum er sama um sjómenn, eins og dæmin sanna, væri hægt að biðja þá að gæta hagsmuna ríkissjóðs og sveitasjóða hringinn í kringum landið, en tekjuskattur og útsvar af þessum launum, sem sjómenn fengu ekki, hefði verið um 9,9 milljarðar króna á tímabilinu; 3,1 milljarður í útsvar til sveitarfélaga og 6,8 milljarðar í tekjuskatt til ríkissjóðs.
Ef við gerum ráð fyrir að sjómennirnir hafi keypt sér vörur og þjónustu fyrir útborguð laun þá bætast við um 2,5 milljarðar króna í virðisaukaskatt. Samtals hefðu opinberir sjóðir því fengið 12,4 milljarða króna ef útgerðin hefði ekki svindlað á sjómönnunum. Tekjur opinberra sjóða af auknum hag útgerðarfyrirtækja vegna svindlsins eru aðeins brot af þessu.