Áhrifamikil teikning sýnir vanlíðan tólf ára stúlku: „Flúði heimilisofbeldið með eina ferðatösku meðferðis“
Ragna nokkur deildi innlegg í Facebook-grúppuna Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu, og lét áhrifamikla teikningu fylgja orðum sínum; oft er sagt að mynd segi meira en þúsund orð – og það á við þessa áhrifamiklu teikningu tólf ára stúlku sem bjó við heimilisofbeldi:
„Systir drengsins sem þvingaður var í umsjá föður síns á Barnaspítalanum teiknaði þessa mynd fyrir 2 árum síðan, þá 12 ára,“ skrifar Ragna og bætir þessu við:
„Hún hefur enn ekki fengið eigur sínar frá föður sínum, sem hann neitar að afhenda henni nema hún sæki eigurnar sjálf, sem hún treystir sér ekki til; hún fær ekki fötin sín – minjagripi; húsgögn eða aðra muni sem henni þykir vænt um.“
Hún nefnir einnig að „fjölskyldan flúði heimilisofbeldi með eina ferðatösku meðferðis. Móðirin hefur heldur ekki fengið eigur sínar afhentar. Faðirinn hefur enn undir höndum fötin hennar, skartgripi, snyrtivörur, húsgögn, minjagripi og aðrar eigur,“ og nefnir að lokum að „þegar hún kom með lögreglufylgd að sækja eigurnar voru þær horfnar úr húsinu.
Systirin fær nú ekki heldur að hitta bróður sinn, sem er í umsjá föður sem neitar að leyfa þeim að hittast. Drengurinn fær heldur ekki að hitta móður sína.“